RÁÐNINGARSKRIFSTOFUR og fleira

Ég skrifaði um daginn grein um miklar uppsagnir á vel menntuðu fólki einkum í tölvugeiranum, og atvinnuleysi þeirra í framhaldi af því.

Ég þekki þessi mál frekar vel þar sem ég er tölvumenntuð og 90% af vinum mínum og kunningjum eru það líka.
Ég var svo heppin að sleppa við allt þetta vesen þar sem ég var búin að fá leið á ruglinu í tölvubransanum, þar sem maður virtist alltaf vera að fara úr öskunni í eldinn sama hvað maður gerði og ég sneri mér að eigin hugarefnum fyrir rúmu ári síðan, þar sem ég get unnið heima og hugsað um börnin mín í leiðinni.

En langflestir af vinum mínum og kunningjum eru hinsvegar búnir að fá að finna fyrir því að missa vinnuna og þurfa að takast á við það stress sem því fylgir að leita að nýrri vinnu og jafnvel þurfa að vera á atvinnuleysisbótum í einhvern tíma.

Það er með ólíkindum sú lífsreynsla sem þetta fólk er að lenda í, og með ólíkindum hvernig ráðningarferillinn í fyrirtækjunum virðist vera og langar mig að segja frá nokkrum skrítnum dæmum.

—–

Í fyrsta lagi ráðningarskrifstofur ! Þvílíka apparatið er það.
Ég þekki menn sem skráðu sig hjá þessum stærstu ráðningarskrifstofum landsins um leið og þeir misstu vinnuna, þeir sækja líka um öll störf við þeirra hæfi sem eru auglýst hjá þeim en komast ALDREI svo mikið sem í viðtal, þó liðið hafi vikur og jafnvel mánuðir.
Og ég get lofað ykkur því að þetta eru vel menntaðir menn með langa starfreynslu og FRÁBÆR meðmæli.
Einn af þeim varð frekar pirraður þegar hann sá að starf sem hentaði honum fullkomlega og hringdi inn í ráðningarskrifstofuna og spurði hvers vegna hann hefði ekki einu sinni komist í viðtal.
Svarið sem hann fékk var að þetta væri ekki nógu vel launað starf fyrir hann :-/
Nú var málið samt það að hann hafði aldrei skráð launakröfur, því hann vildi vera raunsær og athuga hvert mál fyrir sig. Hinsvegar þá var síðasti vinnustaður hans Decode, sem eru þekktir fyrir að borga vel og þá var sjálfkrafa ákveðið að hann myndi ekki sætta sig við launalækkun og hann fékk ekki einu sinni tækifæri á að hitta talsmenn fyrirtækisins og sýna hvað í honum býr.
Já einmitt það er nefnilega betra að vera á atvinnuleysisbótum en að lækka um 20% í launum eða eitthvað álíka.

Annað dæmi af ráðningarskrifstofum var þegar nokkrir vinir sóttu um sama starfið.
Þegar búið var að vinna úr umsóknum voru 2 kallaðir í viðtal og fyrirtækið vildi ráða þá, þeir voru samt ekki búnir að svara neinu.
Á sama tíma fengu hinir 2 bréf um að búið væri að ráða í starfið :-/
Mennirnir sem var boðið starfið enduðu svo á að neita því og ráða sig frekar annarstaðar, og þar sem þeir eru vinir þeirra sem aldrei var boðið í viðtal þá vissu þeir vel að ekki var búið að ráða í starfið og vita nú ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

Svona eru fjölmörg dæmi frá þessum blessuðu skrifstofum þar sem dæmið virðist ekki vera alveg hugsað til enda og ekkert pælt í því að bak við þessar skrár í tölvukerfinu þeirra er alvöru lifandi fólk, með tilfinningar, sem vill ekkert frekar en að finna sér starf og standa sig vel. Enda fæstir atvinnulausir af því að þeir séu ekki duglegir eða klárir, heldur vegna kreppu á þessum markaði.


Ekki eru það bara ráðningarskrifstofurnar sem virðast haga sér eins og asnar í þessum málum.
Eitt dæmi er meðalstórt hugbúnaðarhús sem ég ætla ekki að nafngreina.
Einn tölvunarfræðingur sem ég þekki og var búinn að missa vinnuna, gekk þangað inn og sótti um vinnu og var þvílíkt heppinn og var ráðinn á staðnum.
Nokkrum vikum seinna frétti hann að það væri séns á að það þyrfti að ráð fleiri svo hann benti vinum sínum á það.
Einn rauk til og sendi tölvupóst á framkvæmdastjórann með starfsumsókn og ferilskrá, en fékk aldrei neitt svar. Svo hann sendi ítrekun og henni var svarað og þeir ákváðu að mæla sér mót.
Vill taka það fram að þessi maður er með áralanga starfsreynslu og ein bestu meðmæli sem menn geta fengið.
Nú hann fór í viðtalið og þar tók framkvæmdastjórinn á móti honum og byrjaði á því að segja : “Svo þú ert að hugsa um að byrja í tölvubransanum !”
Vinur minn svaraði hissa að hann hefði nú verið í honum í mörg ár og spurði hvort hann hefði ekki lesið ferilskránna. Stjórinn fór þá að leita í tölvupóstinum hjá sér þar til hann fann skránna og renndi þá lauslega yfir hana.
Eftir stutt og furðulegt samtal þá sagði stjórinn vini mínum að þeir myndu vita eftir 2 vikur hvort þeir gætu ráðið eða ekki og bað hann um að hafa samband þá.

Viku seinna hringdi vinurinn sem vinnur þarna í hinn sem var að sækja um og segir að það sé líklega verið að fara að ráða mann strax eftir helgi og spyr hvort það sé hann.
Svo var ekki. Sá sem er að vinna þarna fer þá að grennslast fyrir og kemst að því að sá sem verið var að hugsa um að ráða sé 23 ára og nýútskrifaður úr skóla, með enga reynslu.
Hinn sem var að sækja um (með reynsluna og meðmælin) reynir nú að hringja í framkvæmdastjórann til að spyrja um stöðuna og minna á sig, en án árangurs, stjórinn er aldrei við og hringir ekki til baka. Hann sendir honum tölvupóst, en ekkert svar.
Nokkrum dögum seinna er sá óreyndi ráðinn !
Og vinurinn á vinnustaðnum er vægast sagt ekki sáttur við þetta og eftir smá fyrirspurnir kemst hann að því að hinir eigendurnir (fyrir utan framkvæmdastjórann) vissu EKKERT um umsókn reynda mannsins, en þeir sjá semsagt um ráðningar í sameiningu.


Síðan að lokum þá eru dæmin um fólkið sem er tilbúið að vinna eitthvað annað en það sem tengist fyrri menntun eða reynslu, en fær engin tækifæri vegna þess að það er með of mikla menntun og reynslu :-/
Sumir vilja jafnvel breyta til og vilja frekar fá sér starf í öðrum geira.

Eitt svoleiðis dæmi lenti ég sjálf í.
Þó að það sé gott að geta unnið heima og allt það, þá er líka gott að geta komist aðeins út og umgangast fólk eldra en 10 ára 
Og fyrir nokkrum mánuðum þá sá ég auglýst hlutastarf sem mig grunaði að gæti verið rosalega skemmtilegt og gefandi sótti um það. Starfið krafðist engar menntunar eða reynslu, aðeins skipulagshæfni og þjónustulundar.
Nú það er í skemmstu að segja að ég fékk símtal nokkru seinna frá manneskjunni sem sá um ráðningu í þetta starf og hún kom með þessa heljarræðu um að ég VILDI nú pottþétt ekki þetta starf, að ég væri alltof klár fyrir það og með allt of flotta ferilskrá, þetta væri nú bara illa launað skítastarf og hún ætlaði ekki einu sinni að kalla mig í viðtal því þetta væri nú alls ekkert fyrir mig.
Ég var svo hissa að ég kom varla upp orði, auk þess sem ég þurfti að grípa fram í fyrir henni til þess að segja eitthvað, því hún rausaði bara áfram um þetta.
Ekki það, að eftir þetta símtal missti ég að sjálfsögðu áhugann á starfinu, ekki vegna þess að hún teldi það ekki nógu gott fyrir mig, heldur vegna þess að ég hefði aldrei viljað vinna undir þessari manneskju sem valtaði þarna yfir mig með fordómum upp á við.


Mér finnst furðulegt hvernig hægt er að ákveða svona fyrir fólk hvað það vill og hvað ekki.
Hvað á fólk að gera ? Henda ferilskránni og þykjast hafa verið heimavinnandi í mörg ár ?
Er það eini sénsinn til að fá ráðningarskrifstofur og framkvæmdastjóra til að fatta það að þó að maður hafi einhverntímann verið með 500 þús í laun, eða einhverntíman verið hópstjóri eða eitthvað annað, þá sé ekkert pottþétt að það sé það sem maður leggi aðaláherslu á í dag. Kannski hatar maður að þurfa að bera ábyrgð, kannski þolir maður ekki starfið sem maður þarf að vinna til að fá 500 þús og vill mikið frekar vera hamingjusamur með 150 þús en ríkur og pirraður.

Hvernig í ósköpunum getur bláókunnugt fólk tekið endalaust upp á því að dæma svona fyrir aðra, og það líka án þess einu sinni að hitta það fyrst ?
Þetta finnast mér léleg vinnubrögð og ef einhver sem les þetta hefur einhver tengsl inn í ráðningarskrifstofur eða ráðningarferli fyrirtækja, þá hvet ég þá til að koma þessum skilaboðum áleiðis, því eins og virðist vera að þessu staðið í dag, eru fyrirtækin ekki endilega að fá hæfasta fólkið, því er nefnilega ekki gefið tækifæri vegna þess að það er áætlað að það hafi of miklar kröfur.