Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði að einn þriggja dómara, sem mynduðu meirihluta Hæstaréttar í Öryrkjamálinu, hefði haft samband við ríkislögmann og sagt ómögulegt að greiða strax út bætur samkvæmt dómnum.

Davíð sagði, að þegar kröfur fóru að gerast háværar í kjölfar Hæstaréttardómsins um að Tryggingastofnun greiddi strax út óskertar bætur, án undangenginnar lagasetningar, hefði einn dómaranna úr meirihlutanum sem kvað upp dóminn umdeilda, hringt í ríkislögmann að eigin frumkvæði, og sagt fráleitt að þetta væri hægt. Ástæða símtalsins var ekki síst yfirlýsing Karls Steinars Guðnasonar, forstjóra Tryggingastofnunar á sínum tíma, en hann teldi í upphafi engin vandkvæði á að greiða óskertar bætur frá og með 1. janúar síðastliðnum. Honum var síðan greint frá því að engu væri hægt að breyta um upphæð bótanna nema að undangenginni lagasetningu, og nú hefur forsætisráðherra sem sagt lýst því yfir að það hafi einnig verið skilningur í það minnsta eins dómaranna þriggja, sem úrskurðuðu Öryrkjabandalaginu í hag.

Davíð tilgreindi ekki hver dómaranna þriggja hringdi í ríkislögmann af þessu tilefni og sagðist aðspurður ekki sjá ástæðu til að nafngreina hann.

Forseti leiti til Hæstaréttar
Þá sagðist Davíð aldrei hafa efast um að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, myndi staðfesta lögin. Hann benti jafnframt á það, að það vanti í raun allan lagaramma um stjórnarskrárbundinn málskotsrétt forsetans. Hvergi sé kveðið á um hver eigi að ákveða hvernig að þjóðaratkvæðagreiðslunni skuli staðið, engin lög segi til um hversu langur tími þarf eða má líða frá því að forseti neitar að staðfesta lög þar til málið er borið undir þjóðina, og svo framvegis.

Davíð varði þá ákvörðun forseta Hæstaréttar að svara efnislega bréfi forsætisnefndar Alþingis, og sagði ekkert athugavert við þau vinnubrögð. Enginn dómaranna væri vanhæfur til að fjalla um frekari kærumál Öryrkja vegna þeirra. Taldi hann eðlilegt að forsætisnefnd Alþingis leitaði skýringa hjá Hæstarétti, þar sem dómurinn hafi ekki verið jafn skýr og menn hefðu kosið, og forseti Alþingis hefði að sjálfsögðu ekki viljað bera ábyrgð á því að lög, sem stríddu gegn stjórnarskránni, yrðu samþykkt á Alþingi.

Stjórnarandstæðingar hefðu haldið því fram að þarna væri verið að festa stjórnarskrárbrot í lög, og farið fram á að málinu yrði vísað frá á þeim forsendum að það væri óþinglegt. Þrír lagaprófessorar hefðu lýst því yfir að frumvarp heilbrigðisráðherra bryti ekki í bága við stjórnarskrána, en það hefði greinilega ekki nægt mönnum, og því enginn eftir til að leita álits hjá nema Hæstiréttur sjálfur, sem kvað upp dóminn.

Bréf forseta Hæstaréttar hefði skýrt áður óskýran dóm, og sagðist Davíð ekki efast um að allir dómararnir níu hefðu verið sammála innihaldi bréfsins, þótt fjórir þeirra hafi verið ósáttir við formsatriðin.

Það er hins vegar alveg ljóst, segir Davíð, að enginn er betur til þess fallinn að skýra dóma Hæstaréttar en Hæstiréttur sjálfur, þegar þess gerist á annað borð þörf að fá frekari skýringar.

Þá vék hann aftur að málskotsrétti forseta. Sagðist hann ekki þeirrar skoðunar að forsetaembættið liði undir lok ef forseti gripi til málskotsréttarins, eins og Geir H. Haarde hélt fram fyrir skemmstu. Forseti Íslands væri jú þjóðkjörinn, öfugt við Danadrottningu, sem Geir tók sem dæmi um þjóðhöfðingja sem væri allsendis ófært að neita að staðfesta lög þegar allt kæmi til alls, þrátt fyrir að stjórnarskrá kveði á um annað. Hann sagðist hins vegar telja það eðlilegt, að ef forseti er í vafa um hvort lög, sem hann á að staðfesta, standist stjórnarskrá, þá leiti hann ráða hjá Hæstarétti í framtíðinni áður en hann ákveður hvort hann staðfestir þau eða ekki.