Ég vil byrja á því að taka fram að ég er enginn sérfræðingur í pólitík en væri til í að sjá nokkur atriði breytast hér á Íslandi á næstunni. Þar sem núverandi ríkisstjórn vill bara halda “stöðuleikanum” efast ég um að þetta mun skeð á þessu kjörtímabili, en vonandi mun margt af þessu samt lagast í framtíðinni. Nú hefur Davíð Oddson (og félagar) talað um að lækka skatta um 30 milljarða u.þ.b, ég vil frekar hafa svipaða skatta eða meiri og bæta þjóðfélag okkar til hins betra. Ég veit að það er mjög margt sem mætti bæta en þetta eru bara nokkur atriði sem mér dettur í hug í dag, endilega skrifið sjálf í svörum ykkar hverju þið væruð til í að breyta.

– Skattar –

Áður hafði ég þá skoðun að það væri sanngjarnt að taka meiri tekjuskatt af fólki með góð laun en þau sem hafa lágmarkslaun. En nú tel ég að það væri sniðugara að hafa nákvæmlega sömu % af öllum launum og þá á sama tíma bæta lágmarkslaunin. Það er miklu einfaldara heldur en að fara að breyta sköttum út og suður og hafa flóknar reglur um það. Þá þarf fólk líka ekki að hafa áhyggjur yfir því að skattarnir hækki þegar launin þeirra hækka.

– Lágmarkslaun –

Lágmarkslaun á Íslandi eru allt of lág að mínu mati og bitnar það á mjög mörgum. Það getur vel verið að margir græði af þessari skattalækkun að vissu leiti, en það er hægt að nota þessa peninga á svo miklu betri hátt. T.d. með því að hækka lágmarkslaun upp í svona 100-120 þúsund u.þ.b. á mánuði fyrir fulla vinnu (18+ ára). Auðvitað á að borga þeim sem hafa góða menntun meira, en að mínu mati ættu allir að eiga efni á að lifa “venjulegu” lífi fyrir fullt starf þó þau hafi ekki góða menntun. Það breytir ekkert að fólk vill mennta sig til þess að taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu og fá hærri laun fyrir t.d. flottum bílum, gemmsum, tvíbýlishúsum og utanlandsferðum. Það er eins og það eina sem kemur í veg fyrir þetta sé það að ríka fólkið græðir ekkert á þessu, en það gera þau ef skattar eru lækkaðir.

– Menntun –

Það er einfaldlega bull og vitleysa að allir á Íslandi fái sömu tækifæri til þess að mennta sig, já ástandið er betra en í mörgum löndum eins og t.d. Bandaríkjunum. En það er miklu betra og auðveldara að mennta sig í bara flestum norðurlöndum held ég, í sumum löndum eins og t.d. Danmörku er borgað nemendum laun fyrir að mennta sig enda góð fjárfesting fyrir landið. Það væri kannski seinna hægt að íhuga að gefa nemendum laun en það væri allavega góð byrjun hérna að fella niður skólagjöld og leigja nemendum bækur ókeypis. Margir hafa þær áhyggjur að þá fari fleiri í nám til þess að “chilla” og taka þátt í félagslífinu en það væri betra að breyta kröfum í skólanum og reka þá nemendur sem mjög augljóslega væru ekkert að reyna að mennta sig. Og þegar nemendur fá laun þá væri hægt t.d. að draga vissa % af laununum fyrir hvert próf sem nemendur fá ekki lágmarkseinkunn í og einnig hækka launin um vissa % fyrir það að fá 8 eða hærra í einkunn. Svona kerfi myndi hvetja nemendur meira til þess að standa sig vel enda myndi það hafa áhrif á budduna.

– Vöruverð –

Ég er ekki viss hversu mikið ríkisstjórnin getur skipt sér af þessu en ég allavega verð að nefna þetta samt. Það er mjög dýrt verð á vörum bara almennt á Íslandi og er örugglega ein af aðal ástæðunum lítil samkeppni fyrirtækja og/eða háir skattar. Hvort sem það sé internet, bensín, matur eða föt þá er þetta allt dýrara en í þeim löndum sem við berum okkur saman við svo oft. Ég skil það að Ísland er stórt land með litla þjóð á miðju Atlantshafinu en það er ekki endalaust hægt að nota það sem afsökun, við t.d. sleppum við að reka stóran her sem margar þjóðir eyða meiri pening í en fyrir heilt mennta- eða heilbrigðiskerfi!

Ég veit að það yrði mjög erfitt að breyta þessu öllu og þá jafn mikið og ég nefndi. En ég er bara kominn með ógeð á því að núverandi leiðtogar þjóðarinnar segi að allt sé frábært og það eigi að halda þessum stöðuleika sem sé svo góður. Það hræðir mig að margir þeirra vilja frekar hafa Ísland sem minni útgáfu af Bandaríkjunum en sem alvöru Evrópuland. Ég virkilega vona að margt breytist til hins betra á næstu árum en það skeður ekki ef leiðtogar þjóðarinnar loka bara augunum og horfa í hina áttina!

P.s. ég nefndi ekki t.d. heilbrigðiskerfið eða dómskerfið en það hefur bara verið svo mikil umræða um það að ég ákvað að sleppa því. Ef þið viljið getið þið alveg nefnt það eða eitthvað annað sem er mikilvægt að bæta á Íslandi. Tilgangurinn er nefnilega bara að byrja umræðu sem ég vona að margir taki þátt í svo að fólk opni aðeins augun og kíki í kringum sig.