Eins og talað var um í fréttunum í kvöld, þá hefur Bandaríkjastjórn hvatt stjórnvöld í löndum í austanverðri Evrópu til þess að skrifa undir yfirlýsingu þar sem stutt er ákvörðun Bandaríkjastjórnar að styðja ekki stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls. Í rauninni samþykktu félagar okkar vestan við Atlantshafið slíkan dómstól fyrir örfáum árum síðan, þegar Bill Clinton var forseti árið 2000.

En nei, núna virðist sem að Bandaríkjastjórn hafi sett sig og bandaríska ríkisborgara ofar alþjóðlegum lögum, ofar þeim en nokkru sinni fyrr.

En af hverju hafa Bush og kumpánar hans dregið stuðninginn til baka? Óttast þeir að bandarískir hermenn verði sakaðir um stríðsglæpi og/eða glæpi gegn mannkyni? Ættu þeir að óttast slíkt ef hermenn þeirra hefðu ekkert til saka unnið á fjarlægum slóðum? Nei.

En nú er að koma í ljós að sá möguleiki er til staðar að bandarískir hermenn hafi framið stríðsglæpi í Afganistan (fréttir af fjöldagröfum o.fl.) og einnig hafa einhverjir Belgar hafið mál gegn Tommy Franks, hershöfðingja Bandaríkjanna í Írak.

Bandaríkjastjórn talar í sífellu um hversu mikilvægt réttlætið sé, en vilja svo ekki styðja mjög mikilvægt skref í rétta átt hvað varðar alþjóðlegt réttlæti. Ýmsar mannréttindastofnanir hafa skiljanlega gagnrýnt Bandaríkjastjórn, enda vekur það mikla furðu hvers vegna land sem kennir sig við frelsi og lýðræði og þykist hafa mikinn áhuga á að auka réttlætið í heiminum skuli vera á móti stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls.

Fleiri ríki en Bandaríkin hafa neitað að styðja slíkan dómstól. Kína, Indland, Pakistan, Indónesía og Tyrkland hafa til að mynda öll neitað að skrifa undir samninginn. En samt sem áður má ekki gleyma að Bandaríkjastjórn hafa einmitt lagt gífurlega mikla áherslu á réttlætið sjálft og mikilvægi þess. Auk þess eru Bandaríkin öflugasta land heims og er því gríðarlega mikilvægt að fá þau til þess að styðja stofnun glæpadómstólsins.

En ákvörðun Bush og félaga mun ekki stöðva dómstólinn. Hún mun aðeins setja Bandaríkjastjórn í andstöðu við „mikilvægustu nýju stofnun í 50 ár sem tryggja mun mannréttindi.“

kv.
miles.