Nú, á tímum múgsefjunnar, stríðsæsinga og haturs, þegar alið er á firringu, fáfræði og fordómum, finnst mér rétt að birta þessa grein um fordóma sem ég samdi upphaflega fyrir íslensku.




Fordómar. Við skulum aðeins íhuga þetta orð. Hvað þýðir það? Hvernig má útskýra það? Skilgreiningin á því er ekki einhlít. Frumskilgreiningin er for-dómar, þ.e. að dæma fyrirfram. Nánar er það oft að kynna sér ekki mál en mynda sér strax skoðun á því. Merkingin er strax orðin neikvæð. Fæstir eru með öllu fordómalausir, ýmsir gera sér jafnvel ekki grein fyrir því. Fordómar geta verið mjög misjafnir, snúist um allt frá trúarbrögðum til kynþáttar, frá kynferði til litarháttar og allt þar á milli. En allir eiga þeir sér sameiginlegt að fela í sér fyrirfram dóm án raka, án þess að kynna sér mál og eru oft uppsprottnir af fáfræði. Þeim fylgja oft stór orð og alhæfingar.Þeir eru útbreiddir um allan heim og hafa valdið mörgum skelfilegum atburðum í sögunni, svo sem styrjöldum og ýmis konar ofsóknum. Skemmst er að leita í ofsóknum gegn frumbyggjum Ameríku, gyðingaofsóknir í stríðinu, kúgun blökkumanna og svo mætti lengi telja.


Oft heyrir maður: ,,Óttalegir villimenn eru þessir múslímar. Kúga konurnar sínar, trúa í blindni á kóraninn, ofsatrúarmenn”. Með þessu er verið að alhæfa að múslímar séu ofstækismenn. Þeir eru auðvitað ekkert verri en við. Þar liggur hundur grafinn. Íslendingar og vesturlandabúar yfirleitt eru engir englar heldur. Víða hefur fólk verið kúgað í gegn um aldirnar og þess krafist að allir tryðu á Krist, út af þessu hafa meira að segja geisað stríð. Kirkjan hefur oft verið ægivald, bælt niður alla mótspyrnu með hörku og fordæmt aðra fyrir að vilja hafa sínar eigin skoðanir og trú. En þetta er náttúrulega bara eitt dæmi.

Annað deiluefni í flestum löndum eru innflytjendur. Nýbúar hafa orðið fyrir áreiti fyrir þær sakir einar að vera öðruvísi. Hafa aðra trú, vera af öðrum litarhætti eða hafa aðrar skoðanir en þorri íbúa landsins. Oft koma þeir til nýs lands að leita betri tækifæra og ýmsir flýja harðræði heimalands síns. Í staðinn fyrir að vera boðnir velkomnir geta þeir búist við tortryggni eða andúð og verða oft blórabögglar ef eitthvað amar að í þjóðfélaginu. Þar sem atvinnuleysi ríkir er útlendingum kennt um, en þar sem vantar vinnuafl, eins og í fiskvinnslu á Íslandi er þeim þó betur tekið. T.d. er fólk af 40 þjóðernum búsett á Vestfjörðum. Á Íslandi hafa orðið snarar breytingar á síðustu árum. Nýbúum fjölgar óðfluga. Sumir telja þetta vandamál, aðrir taka því fagnandi.Aðrir fordómar spretta af trúarástæðum, kynferði eða kynjamisrétti.


Biblían, trúarrit kristinna kennir að allir menn séu jafnir fyrir guði en hún er í mótsögn við sjálfa sig. Biblían fordæmir samkynhneigða, konur, fólk af öðrum trúarbrögðum en þó sérstaklega fílistea (Palestínumenn). Það sýnir að hatrið var strax uppsprottið þá. Ísraelsmenn styðjast við Biblíuna þegar þeir krefjast réttar síns yfir Ísrael. En sannleikurinn er sá að þeir hafa komið til Palestínu sem hirðingjaþjóðflokkur, lagt undir sig landið en bolað frumbyggjum í burtu.
Þá minnist ég þess þegar mér á veikri stundu varð litið á Omega. Þar hélt prestur þrumuræðu sem ég hálflímdist við. Er ég fór að hlusta á þetta varð mér meira og meira ljóst ofstækið í orðum hans. Hann rifjaði upp þegar Isaac Rabin var skotinn og vitnaði í orð hans þegar hann sagði að Ísraelsmenn gætu ekki byggt kröfu sína til Ísrael á því einu að Biblían segði það. Svo var Rabin myrtur. Presturinn sagði vera tengsl þar á milli. Með þessum orðum sínum hefði Rabin lýst yfir stríði við guð og guð hefði refsað á réttlátan hátt.
Þetta var þröngsýn skoðun ofstækisfulls ofsatrúarmanns í sinni hreinustu mynd. Rabin vildi horfa á málin í víðara samhengi, en ekki bara trúa hverjum bókstaf. En svo var hann myrtur.

Nefna má mörg dæmi um fordóma í Bandaríkjunum. Saga þeirra er frá öndverðu merkt kynþáttamisrétti og kúgun. Allt frá því að Kólumbus kom. Indíánum hefur gegnum aldirnar verið lofað gulli og grænum skógum en allt hefur verið svikið.Milljón sinnum hefur þeim verið lofað að þeir mættu hafa landið í friði en það hefur verið svikið, þeir hraktir á önnur svæði og verið seinna hraktir þaðan o.s.frv. Þeir, líkt og blökkumenn, hafa verið kúgaðir óspart og þurft að sæta verstu fordómum og ofsóknum. Samtök eins og Ku-Klux-Klan ganga út á það að hvíti maðurinn telur sig hafa yfirburði yfir aðra kynstofna, nokkuð lík hugmynd og finna mátti hjá nasistum Hitlers. Reglan var stofnuð sem riddararegla 1866 og hefur síðan þá gert lituðum og nýbúum lífið leitt. Samhliða trú hvíta mannsins á yfirburði sína voru indíánar og blökkumenn hnepptir í þrældóm. Fjöldi þræla voru t.d. fluttir með skipum til gamla heimsins en fæstir þoldu siglinguna og flestir dóu.
Þegar Kólumbus kom til Ameríku 1492 voru 2 milljónir Arawak-indíána á Vestur-indíum. Sextíu árum seinna voru engir eftir. Þó segir í upphafi sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna: ,,Allir menn eru fæddir jafnir”. Þeir gleymdu víst indíánum, blökkumönnum og konum.


Eins og ég þykist hafa sýnt fram á eru fordómar stór löstur fyrir mannkynið. En hvað er þá til ráða? Þetta getur reynst erfitt þegar margir valdhafar eru sjálfir haldnir fordómum, já, þegar sjálfur leiðtogi hins kristna heims er haldinn þröngsýni og er fljótur að dæma.
Aðeins saman getum við sigrað þetta. Með fræðslu, gagnkvæmri virðingu og skilningi, varfærni í dómum og umburðarlyndi.


Árið 1963 lýsti hinn frægi leiðtogi fyrir réttindum blökkumanna, Martin Luther King yfir: ,,Ég á mér draum um að einhvern daginn í hinum rauðu hlíðum Georgíu geti synir fyrrverandi þræla og synir fyrrverandi þrælaeiganda sest niður við borð bræðralagsins.”Aðeins fimm árum seinna var hann myrtur. Mun draumur hans nokkurn tímann rætast?