Vissir þú að klám er bæði bannað á Íslandi og ekki bannað? Þetta kemur eflaust mörgum á óvart og kemur líklega flatt upp á suma. En svona eru lögin okkar. Klám er bannvara, með strangari bönn en áfengi og tóbak, en þó vægari bönn en fíkniefni.

Hvað í sambandi við klám er þá bannað? Ekki allt. Það er ekki í sjálfu sér bannað að horfa á klám, né að framleiða klám til að eiga það sjálfur. Það er ekki bannað heldur að hafa klám undir höndum. Það er aftur á móti harðbannað að gefa það, dreifa því, selja það eða sýna það öðrum.

Lögin um þetta voru okkur sett á alþingi hinn 12. febrúar 1940 (þegar amma mín var sjö ára og Hitler og Stalín voru vinsælir á Íslandi), í almennum hegningarlögum, og hljóða svona:

“210. gr. Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt.”

Það skal tekið fram að þessi lög eru mitt á milli laga um nauðganir og laga um manndráp.

Það má sem sagt setja mann í 6 mánaða fangelsi fyrir það eitt að gefa vini sínum klámmynd. Ég held að nokkrir félagar mínir væru þá orðnir varanlegir tugthúslimir fyrir að senda mér tvíræðan tölvupóst, ef lögreglan kæmist í outlookið hjá mér.

Hafa skal það til samanburðar að maður var nýverið dæmdur í svipað langa fangelsisvist fyrir að hafa ítrekað samræði við tvær stúlkur á barnsaldri. Hvað segir þetta okkur um gildismatið hjá löggjöfinni og dómsvaldinu? Sama fangelsisvist fyrir að senda klám í tölvupósti og fyrir að nauðga barni ítrekað.

Ef siðferðislegar spurningar um gildismat, réttlæti og frjálsræði höfða ekki til þín, þá vil ég meina að lög sem þessi hafi einnig gífurlega neikvæð áhrif á íslenskan efnahag. Öll lög um það hverju má og má ekki dreifa, og hvað má og má ekki auglýsa, skerðir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og dregur úr tækifærum í viðskiptum.

Með lögum er til dæmis bannað að auglýsa áfengi. Þó er áfengi ekki bannað á Íslandi. Þetta skerðir samkeppnisstöðu íslenskra áfengisframleiðanda gífurlega því þeir mega ekki auglýsa vöru sína sem þó er lögleg. Á meðan er flóð af auglýsingum um erlendar áfengistegundir sem Íslendingar sjá hvað ofan í annað í sjónvarpi, bíómyndum, tímaritum, íþróttaviðburðum, á netinu o.s.frv. Áhrifin eru þau að ekkert meinar erlendum framleiðendum að auglýsa áfengi á Íslandi, en íslenskum framleiðendum er meinað að nýta heimavöllinn til að auglýsa á sama markaði.

Á sama hátt er Íslendingum bannað að dreyfa klámi. Þýðir þetta að klám fyrirfinnist ekki á Íslandi? Nei, að sjálfsögðu ekki. Íslendingar finna sig einfaldlega tilneydda til að versla sitt klám erlendis frá. Internetið gerir mönnum auðvelt að greiða erlendum aðilum fyrir klámefni af hvers kyns tagi, og netið er yfirflæðandi af auglýsingum um slíkt efni. Enda sýna rannsóknir að eftirspurn eftir slíku efni sé meiri en eftir nokkru öðru efni á netinu. Ekkert af þessu er ólöglegt athæfi á Íslandi, hvorki að versla klám yfir netið erlendis frá né að eiga það eða horfa á það. Hvers vegna skyldi þá vera ólöglegt fyrir Íslendinga að dreifa klámi á Íslandi, ef útlendingar mega það?

Íslendingum sem sjá sér þann leik á borði að nýta sér þessa gífurlegu eftirspurn, með því að flytja inn klámefni eða framleiða það í samkeppni við þessa erlendu dreifingaraðila, er bannað að gera slíkt. Forræðishyggjan er svo sterk í þjóðarsálinni að mönnum er hreinlega meinað að nýta sér þessa tekjulind, og nýta sér samkeppnisstöðu sína að vera á heimavelli. Það mætti til dæmis nýta sér að niðurhlaðning gagna innanlands á netinu er ókeypis ef maður er með fasttengingu.

Á meðan streyma peningar fyrir klámi úr veskjum landans til að fóðra vasa klámkónga erlendis.

Fellum úr gildi þessi úreltu lög. Leyfum fullorðnu fólki að selja fullorðnu fólki myndir af fullorðnu fólki við að stunda athæfi sem ekki er ólöglegt.