Er maður heimskur fyrir skoðanir sínar ?

Vinstri maðurinn hefur þá hugsjón, þann draum að búa í heimi þar sem allir eru vinir.
Þar sem allir hjálpast að.
Þar sem samkenndin er svo sterk að allir vinna saman að því að skapa betri og betri heim.

Hægri maðurinn hefur þá hugsjón, þann draum að búa í heimi þar sem einstaklingurinn er settur fram yfir allt.
Þar sem allir hafa rétt að að gera hvað sem þeim sýnist.
Þar sem fólk er verðlaunað fyrir dugnað sinn og hæfileika.

Er eitthvað slæmt við þetta ?
Hægri eða vinstri ?

Ef við setjum þetta svona einfalt upp þá tel ég að það séu fáir sem geti sagt að þetta séu slæmir hlutir, sama á hvorum endanum maður er.
En einhverra hluta vegna þá lítur fólk ekki svona hlutlaust á þessi mál.
Fólk er gegnsýrt af bræði gagnvart þeim sem hafa aðra skoðun en það.

Hægri menn segja sumir hverjir að vinstri hugsjónin sé slæm vegna þess að einstaklingurinn fái ekki að njóta sín.
Vinstri menn mótmæla þessu og segja að kerfið þeirra byggi á því að allir geti gert það sem þeim langar til og samt verið hluti af heildinni.

Vinstri menn segja sumir hverjir að hægri hugsjónin sé slæm vegna þess að þar vanti alla samkennd og þeir sem minna meiga sín verði illa úti.
Hægri menn mótmæla þessu og segja að kerfið þeirra sé hvati til að allir standi sig vel og að það verði enginn í raun minni máttar.

Það er að segja, þeir segja þetta sem hafa kynnt sér málin og vita út á hvað sín hugsjón gengur.

Það eru hinsvegar allt of margir sem virðast ekkert vita í sinn haus um pólítík eða hugsjónir þeirra eða stjórnarfar eða sagnfræði sem tengist þessu.
Þetta fólk sér sig samt knúið til að koma inn sínum skoðunum oft rökstuddum með rangfærslum og bulli auk orðaforða eins og “hægrasinnuðu svín” eða “viðbjóðslegu kommar” eða “Dabbi er bara feit fyllibytta” eða “Ibba grybba er sköllótt kelling”.

Þetta leiðist mér alveg rosalega og get ekki skilið af hverju þetta þarf að falla í þennan farveg aftur og aftur og aftur og aftur og aftur……..
Þetta kemur málnu bara ekkert við.

Við höfum öll okkar misbresti og persónugalla. Enginn er fullkominn, en þrátt fyrir eða kanski stundum vegna þessara mispresta í okkar fari þá höfum við líka hæfileika, hugmyndir og vilja til að gera ákveðna hluti.
Það að einhver sé frekur getur gert hann leiðinlegann en í leiðinni þá getur það verið kostur til að framfylgja sínum málum og skoðunum o.s.frv.
Og það að einhver sé gefinn fyrir sopann hefur nákvæmlega ekkert með gáfur eða hæfni viðkomandi einstaklings að gera og gæti meira að segja bara verið merki um viðkvæmnina sem leynist oft undir hörðustu nöglum.

Bestu leiðtogar heimsins hafa allir haft einhverja galla, allt frá drykkjusýki eða kvennsemi yfir í furðulegar geðtruflanir eins og þörf fyrir að telja ljósastaura eða eitthvað þessháttar.

Allir misstíga sig líka einhverntíman á lífsleiðinni. Það á einnig við um pólítíkusa. Þeir eru bara fólk eins og við og geta lent í því að halda fram hjá með lærlingnum eða senda tölvupóst í stundarbræði með rauðvínsglas í hönd eða jafnvel að svíkja stórfé frá ríkisstofnunum og stela.
Mjög mis alvarleg brot, en engu að síður mannleg og þar af leiðandi eðlileg.
Þau breyta ekki í almennt séð hæfileikum mannsins til að framkvæma hugsjónirnar sínar, því við erum öll breysk og enginn getur ætlast til að pólítíkusar séu fullkomnara fólk en þú og ég. Pólítíkusar eru nefnilega þú og ég.

Ég leifi mér að fullyrða að allir pólítíkusar eru í þessu starfi vegna þess að þeir telja sig hafa eitthvað fram að bera sem getur gert heiminn okkar betri en hann er.
Ég leifi mér að fullyrða að það er enginn pólítíkus sem vill skemma og drepa og stela og valda fátækt og kreppum – sama á hvaða stefnu þeir eru.
Þá er ég auðvitað ekki að telja með brjálaða einræðisherra, heldur eðlilega pólítíkusa með hugsjónir.

Þar af leiðandi er bagalegt að heyra og lesa skrif fólks sem endalaust stimplar aðra heimska og vonda bara vegna þess að þeir eru ekki á sömu skoðun og vill ég eindregið hvetja fólk til að láta af þessum leiða sið og bera virðingu fyrir hvort öðru.

Maður er EKKI heimskur fyrir skoðanir sínar !

Og í viðurkenndum nútíma pólítískum stefnum er ekkert heldur sem hægt væri að kalla vont - þær byggjast allar á því að ná sama takmarkinu - heimi þar sem öllum eða allavegan flestum líður vel og hafa það gott !