Í kvöld sá ég í fréttum stöðvar 2 að það er lokað á sumrin göngudeildum fyrir endurhæfingu geðsjúkra, bráðarmóttaka starfar þó áfram en augljóslega hefur þetta slæm áhrif á geðsjúka og missa þau langan tíma úr endurhæfingu. Ég vil ekki blanda of mikið af pólitík í þetta, en segi þó að Davíð Oddson og aðrir stjórnmálamenn hafa í kosningum verið að tala um hvað það sé gott að búa hérna og að líf hér sé svipað gott og á öðrum vestrænum ríkum löndum. En ég efast stórlega um að í þessum löndum sem við berum okkur svo oft saman við, að þar sé bara rekið fólk hreinlega burt með lyf í vasanum þegar það kemur að sumarfríi starfsmanna!

Það er réttlætt þetta með því að það sé ekki nóg af fagfólki til þess að taka við á sumrin, nú tel ég þetta vera einfaldlega rangt og að það sé auðveldlega hægt að laga þetta ástand með betra skipulagi og aðgerðum ríkisstjórnar í þessum málum. Ég er hræddur um að núverandi ríkisstjórn haldi áfram að vanrækta þetta mál, sérstaklega þegar menn verða uppteknir í því að lækka skatta um 30 milljarða, þá verður hvorki tími né peningur í það að laga þetta ástand, eða hvað ? Ég held nú allavega að það hjálpi ekki til.

En þó að sumarið sé versti tími fyrir geðsjúka (í sambandi við þjónustu) þá er úrræðaleysi allt árið. Það eru 53 einstaklingar (talan breytist reyndar reglulega) sem að búa bara úti í Öskjuhlíð allt árið og mæta svo bara upp á spítala til þess að ná í lyfin sín á morgnana. Geðlæknar hafa kvartað reglulega yfir því að þjónusta geðsjúka hefur verið að minnka, en þó virðist sem ríkisstjórnin geri ekkert í þessum málum. Skattalækkanir og annað hefur greinilega forgang!

Og ekki má gleyma Barna- og unglingageðdeild sem hefur verið mikið í fjölmiðlum seinustu mánuði, aðeins tekið við neyðarástöndum (sjálfsmorðstilraunum) og er í raun verið óbeint að hvetja til þess að börn og unglingar geri það til þess að þau fái herbergi á deildinni. Einnig hefur jafnvel skeð að það hafi verið sent BÖRN á geðdeildir fyrir fullorðna í miklu neyðarástandi. Það er ótrúlegt hvernig það er bara tekið upp á því að auka lyfjaskammt hjá fólki þegar það er minnkað þjónustu þeirra! Er þetta virkilega sættanlegt í þessu “góða” samfélagi okkar ?

Ég geng það langt að segja að þetta úrræðaleysi er að drepa fólk, fólk með alvarlega geðsjúkdóma getur verið í mjög viðkvæmu ástandi og það eitt að heyra um lokun á sumrin getur raskað geðheilsu fólks og hægt á meðferð þeirra. Hvernig myndi fólk taka því ef það væri t.d. lokað slökkvistöðum á sumrin ? Ég meina nokkrir einstaklingar slasast/deyja, en ég meina starfsfólkið þarf sitt sumarfrí. Hvernig væri að loka slökkvistöðvum á sumrin eins og geðdeildum ? Nei það væri fáranlegt enda er ekki hægt að stjórna því hvenær það kviknar í húsum, en það er nú ekki heldur hægt að stjórna því hvenær fólk fær geðræna sjúkdóma.

Allavega þá vona ég að ríkisstjórnin geri eitthvað í þessum málum STRAX á þessu ári því það er ekki hægt að fresta svona endalaust, jafnvel þótt það sé verið að gera skattalækkanir þá þarf forgangsröð þeirra að vera rétt og er hún það greinilega ekki núna! Geðheilsa fólks er mjög mikilvæg og í raun jafn mikilvæg og líkamleg heilsa okkar. Þetta mál tengist ekki bara nokkrum einstaklingum úti í bæ, heldur okkur öllum og hvernig samfélagi við viljum búa í. Það er nú talað um að ¼ fólks lendi einhvertímann á ævi sinni í alvarlegu geðrænu ástandi, svo augljóslega er mikilvægt fyrir okkur öll og fjölskyldur okkar að ástand geðdeilda á landinu séu í góðu ástandi. Það dugar ekki fyrir alla að fara bara heim með lyf.

Vona að þetta fær ykkur til þess að hugsa, Kveðja Geiri.