Við búum í skrítnum heimi.
Heimi þar sem konur pæla meira í hvernig skóm vinkonurnar eru í en hvernig þær hafa það. Heimi þar sem karlmenn tala meira um fótbolta en tilfinningar sínar.
Við erum öll svo þreytt og leið á endalausum fréttum um stríð og hryðjuverk og hungursneiðar og fátækt á Íslandi og hræðilega sjúkdóma og barnaníðinga og eiturlyfjavandamál að við lokum á tilfinningar okkar og flýjum í okkar eigin tilbúna heim þar sem engin vandamál fá að koma nálægt okkur.
Og þar fáum við að einbeita okkur af tilgangslausum en skemmtilegum og meinlausum hlutum eins og tískufötum, fótbolta, sjónvarpi, tölvuleikjum, list.
Forgangsröðunin er orðin svo brengluð að við áttum okkur ekki á hvað við erum orðin.
Konan sem er nýkomin heim úr bænum með 2 pör af nýjum skóm, stillir þeim upp inn í skáp við hlið hinna 30 paranna sem flestir hafa bara verið notaðir 1 sinni, svo fer hún til dyra, þar er heyrnalaus maður að selja penna til styrktar heyrnalausum, en hún segist ekki vera aflögu fær eins og er, það standi frekar illa á. Og hún meinar það.
Maðurinn hennar situr fyrir framan sjónvarpið allar helgar og horfir a fótboltann og formúluna. Þegar hann fær hringingu frá kunningja sínum og er beðinn um að hjálpa til á skemmtun fyrir langveik börn um helgina, þá segist hann var upptekinn. Hann er það, það er leikur með Liverpool.

Það er svosem engin furða að við séum svona.
Maður lærir það sem fyrir manni er haft.
Forgangsröðunin á flestum hlutum í heiminum er frekar vafasöm.
Stærstu þjóðir heims eyða t.d. yfirleitt margfallt meiri pening í hernað en í mennta- og heilbrigðismál.
Við höfum engan her á Íslandi til að eyða í, en það er samt alltaf eitthvað sem má frekar eyða peningum frekar í hegóma en nauðsynjar.
Það er t.d verið að klára byggingu Náttúrufræðihús Háskóla Íslands sem er 8.228 fm menntastofnun með 130 starfsmönnum og rúm fyrir þúsundir nemenda.
Bygging þessa húss hefur tekið 7 ár og kostaði 2,2 milljarða.
Í fyrra var opnað sendiráð Íslendinga í Japan. Sú bygging tók innan við 2 ár í byggingu en kostaði tæpan milljarð !
Næstum helming af því sem Náttúrufræðihúsið kostaði, fyrir 1 lítið sendiráð.
Samt leyfi ég mér að fullyrða að Náttúrufræðistofnun hefur ekki verið ódýr.
Ég þekki aðeins til byggingarverktakanna sem hafa verið að vinna við húsið og skilst að þetta sé stórglæsileg bygging þar sem mikið er lagt í flottheit og….hmmm snobb.
T.d. er í loftinu á byggingunni einhver sjaldgæf grjóttegund sem þurfti að sérpanta frá útlöndum og kostaði offjár. Vandamálið með að fá þetta grjót var svo mikið að verktakarnir sáu fram á 3 mánaða töf á verkinu ef nota þyrfti það, svo þeir fóru til arkitektsins og stungu upp á annarri grjóttegund sem mikið er notuð í svona flott loft, en minna mál er að útvega og kostaði þar að auki 30 milljónum minna.
Þeir fengu þvert NEI, og máttu gjöra svo vel að bíða eftir grjótinu !
Það skiptir auðvitað miklu máli að hafa eitthvað flott tískugrjót í loftinu á menntastofnuninni, ef það væri eitthvað ódýrara er alveg pottþétt að nemendur myndu ekki geta einbeitt sér að náminu og kennarar yrðu skapstyggir og ósanngjarnir.

Það eru minnismerki um svona spreð og snobb út um allar tryssur á sama tíma og Háskólinn hefur ekki efni á að ráða almennilega kennara, leikskólar eru allt of fáir, sjúkrastofnanir vantar bæði starfsfólk og pláss.

Enda veit hver heilvita maður að það sem skiptir mestu máli er að hafa nógu dýrt dót í kringum sig, öðruvísi getum við ekki hugsað skýrt.
Ég fór t.d. á fund upp í Ráðhús Reykjavíkur um daginn og er alveg viss um að niðurstaða fundarins hefði verið allt önnur ef við hefðum ekki verið umvafin rándýru timbri frá regnskógum Suður Ameríku !