Ég hef alveg gríðarlegan áhuga á stjórnmálum og get næstum því endalaust blaðrað um þau við þann sem nennir að blaðra á móti. Ég fylgist reglulega með Alþingi og ef ég næ ekki að lesa Moggann á morgnanna þá má með sanni segja að dagurinn minn er hálfónýtur. Ég fylgdist grannt með kosningabaráttunni, studdi mitt fólk og var alltaf tilbúin í rökræður og jafnvel rifrildi ef þannig var bragurinn. Ég veit að það er fullt af fólki hér á huga sem eru sama sinnis.

En undir lok kosningabaráttunnar fór að slá aðeins á áhugann minn. Málefnaleg barátta var á undanhaldi og flokkarnir voru allir sem einn að berjast örvæntingafullt um hina örfáu einstaklinga sem töldust enn vera “óákveðnir”. Í öllum fjölmiðlum rigndi yfir mann fréttum af skoðanakönnunum sem allar virtust eiga það eitt sameiginlegt að þær áttu ekkert sameiginlegt. Framkvæmdar voru ca 5 kannanir á dag og lítið var samræmið á milli þeirra. Ég var að fá uppí kok af þessu.

Hver sem maður fór var fólk með derhúfur, barmmerki og alls kyns bæklinga að troða upp á mann áróðrinum….jafnvel þó að maður væri búinn að tilkynna þessum manneskjum að þetta þýddi ekki..að ég væri fyrir löngu búin að mynda mér skoðun á þessu. Þá buðu þessir einstaklingar manni bara í grill og læti sem var nú barasta hið fínasta mál en kosningafnykurinn af þessum látalátum stjórnmálamannana var næstum því yfirþyrmandi. Ég var farin að óska þess að þetta yrði bara búið og að lífið gæti aftur gengið sinn vanagang.

Loksins, loksins er nú kominn sá dagur að ég get kíkt í Moggann án þess að sjá “broskalla”auglýsingarnar og klögugreinarnar frá fólki sem augljóslega lá mikið fyrir að segja sína skoðun. Þessi kosningabarátta hefur af vitrum mönnum verið lýst sem mestu auglýsingabaráttu stjórnmálaflokkanna í sögu lýðveldisins. Ég ætla ekkert að fullyrða um það en eitt er víst..að ég fékk of stóran skammt af pólitík í síðustu viku og ég fagna því að fara í pólitíska megrun á næstu misserum.