Í dag var varpað hundruðum sprengja á Írak. Nokkrir létust, margir særðust og allir ærðust (vá hvað ég er klár að ríma) og allt þetta var að gerast með fullri sátt og samþykki ríkisstjórnar Íslands sem hunsaði þjóð sína sem og reglur um stjórnskipulagshætti til þess að koma peningalituðum vörum Davíðs Oddssonar nær rassgatinu á Bandarískum ráðamönnum. Auminginn og bleyðan Halldór Ásgrímsson fylgir með í því ófagra kossaflensi sem á sér stað milli Íslenskra lýðræðisnauðgara og Amerískra fjöldamorðingja. Þegar þeir tróðu nafni Íslands og þar af leiðandi nöfnum okkar allra sem eru ríkisborgarar Íslands á þennan lista yfir stuðningsmenn Bandaríkjanna þá var það að utanríkisnefnd forspurðri. Þingið var heldur ekki spurt um leyfi eða samþykki og ekki einu sinni látið vita af fyrirætlunum þeirra Dabba og Dóra. Enn þá síður var þjóðin látin vita eða beðin um samþykki þess að sprengja litla krakka í tætlur. Allt var þetta gert vegna þess að þeir eru sannfærðir um eigið ágæti og eru sannfærðir um að þeir muni halda áfram að vera við völd.

Í dag lak olía úr vinnuvélum, sprengiefni reif í sundur björg og skítug fótspor manna tróðu sér yfir stærsta ósnerta landssvæði Evrópu og þó víðar væri leitað. Bráðum verður þar komin risastór stífa og uppistöðulón sem þekur marga, marga ferkílómetra og eiðileggur þar með stór fuglavörp, beitiland hreindýra og eina svæðið þar sem dýrin gátu loks fengið að vera í frið fyrir yfirgangi og viðbjóði okkar mannana. Allt gert til að viðbjóðslega ríkir hvítir karlar í Bandaríkjunum geti orðið ennþá ríkari. Í staðinn lofa þeir störfum sem aðallega verða tímabundin og ýta flóknu efnahagskerfi Íslendinga fram á ystu nöf sem mun ábyggilega að lokum leiða til kreppu. Allt þetta er gert með samþykki ríkisstjórnarinnar og algerlega án þess að spyrja þjóðina um álit sitt.

Í dag fór öryrki/ellilífeyrisþegi/einstæð móðir út úr húsinu sínu án þess að vita hvernig hann/hún gæti útvegað sér pening fyrir mat til að svelta ekki til bana. Ríkisstjórnin er búin að vera lækka skattana fyrir fyrirtækin og hlutabréfabraskarana og sölumennina og alla hina kapítalistana á kostnað þeirra sem minna mega sín.

Í dag var frestað að leggja veikt fólk inn á spítala því ríkið segist þurfa að spara og skera niður en á sama tíma leigðu þeir flugvélar af Air Atlanta fyrir 300 miljónir til að flytja hergögn fyrir Bandaríkjamenn til Kúweit, réðust í byggingu sendiráðs í Berlín fyrir 900 miljónir. Hefði þessum pening ekki verið betur varið í ódýrari og betri heilsugæslu?

Allar þessar ástæður og margar fleiri hafa sannfært mig um nauðsyn þess að brjóta odd af anarkísku oflæti mínu og kjósa í næstkomandi kosningum sem verða 10. maí. Ég held að flestir sjái það út að ég mun kjósa Vinstri-Græna. Það er margt í fari þeirra sem mér mislíkar. Forsjárhyggjan er allsráðandi og þau vilja þvinga mig til að lúta þeirra hugmyndum um siðfræði en það finnst mér lítil fórn fyrir möguleikann á tímabundinni ríkisstjórn sem hefur frið og umhverfisvernd sem sín markmið. Ég vill ekki taka þá áhættu að fá Dabba og Dóra í ríkisstjórn aftur vegna afskiptaleysis míns og annara efahyggjumanna. Ég á enga von á að VG muni verða aðalflokkurinn né að þeir muni vera einhver fyrirmyndarstjórn en ég vill bara fá einhverja eða eitthvað annað en þetta ógeðslega, veruleikafirrta gerpi sem nú ríður rækjum hér á fróni og til þess þá ætla ég að kjósa. Hvað ætlar þú að gera?


-Vilhelm Vilhelmson
fleiri greinar eru á
http://www.dordingull.com/hardkjarni/dalkurinn/villi/ index.html