Það er ekki svo langt síðan að hér ruddi sér til rúms hópur sem byggir sína predikun á kvennafræðum. Það er hin svonefnda Kvennakirkja þar sem séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir fer í fararbroddi. Þessi kirkja er sjálfstætt starfandi hópur innan þjóðkirkjunnar og heldur sínar messur í kirkjum þjóðkirkjunnar á víxl. Ég leyfi mér að taka smá texta af www.kirkjan.is/kvennakirkjan sem lýsir markmiði kvennakirkjunnar í hnotskurn:

“Guðsþjónustur kvennakirkjunnar mótast af kvennaguðfræði. ………………………………, túlkum texta Biblíunnar svo að þeir verði okkur sem skiljanlegastir og breytum þeim úr textum sem ávarpa menn í texta sem ávarpar konur. Við tölum um Guð sem vinkonu okkar.”

En það sem maður verður að spyrja er hvort þessi heimsspeki sé einhvers virði. Sagði ekki Guð að allir menn væru jafnir og að hann elskaði alla menn? Ég veit ekki betur en svo. Ég er mjög trúuð og ég er mikill jafnréttissinni. Ég hef aldrei dregið það neitt á bak við tjöldin. Ég get heldur ekki orða bundist þegar að ég sé kynsystur mínar afskræma trúarbrögð í nafni kvenfrelsis og jafnréttis þegar þessi gjörð þeirra leiðir óhjákvæmilega ekki til framangreinds. Kristin trú á að sameina fólk og kenna því umburðarlyndi. Ég er ekki alveg að sjá slíkt gerast þegar hópur kvenna styður mismunun kynjanna og felur sig á bak við einhverja helgimynd í leiðinni.

Það sem ég skil ekki við þessa kirkju er að hvernig í ósköpunum þær geta gerst svo kaldar að áætla að Guð hafi velþóknun á fólki sem mismunar öðru fólki. Það er náttúrulega gróf mismunum að hafa eitthvað sem á að vera fyrir alla, opinberlega aðeins fyrir lokaðan hóp sem byggist á kynferði. Það yrði nú eitthvað sagt ef stofnuð yrði Karlakirkjan. Mér finnst þessar konur einfaldlega hafa farið nokkuð vel yfir strikið í þessum málum.

Kvenréttindabaráttan hefur verið löng, ströng og nauðsynleg en nú sýnist mér þetta vera að fara út í öfgar. Þetta lítur út fyrir að vera ekki lengur spurning um jafnrétti heldur að hafa samkundu til þess eins að geta útilokað karla og sagt hí á þig. Svona öfgafemínismi á eftir að snúast á móti okkur konunum (öllum því miður) síðarmeir

Líður þessum konum eitthvað betur að segja hún Guð og syngja áfram kristskonur, krosskonur? Mega karlmenn líka koma í þessa kirkju og biðja? Af hverju má Guð ekki vera FAÐIRINN á himnum? Tölum við ekki hvort eð er um MÓÐUR Jörð?
Það væri gaman að fá að heyra skoðanir ykkar á þessu ;-)