Hér er ein lítil líkindasaga um þjóðfélag okkar. Ef þið eruð ósammála því sem hér er ýjað að skuluð þið bara njóta sögunnar án líkinganna. :)

Þessi saga gerist í Íslenskum skóla. Skólinn er dimmur og drungalegur, andrúmsloftið er grátt og það er blautt. Börnin hlaupa um í regngöllunum sínum, æst og saklaus.

Einn sker sig þó úr. Það er stærsti strákurinn, Donni. Hann er stærri og sterkari en allir hinir og því fylgja þeir honum eftir eins og hundur skotti sínu. Hann hefur myndað klíku sem flestir eru í, en aðeins hann hefur völdin, og smávegis vinur hans Jonni, sem er lítill, pervisinn og flámæltur. Þeir gera allt saman, geta hreinlega ekki verið án hvors annars.

Einn daginn var valdajafnvæginu í skólanum raskað þegar drengur sem var innflytjandi, af útlensku bergi brotinn, kom í skólann. Eðlilega fengu krakkarnir mikinn áhuga á þessum dreng (sem hét Ahmed), en vegna útlits síns fékk hann enga vini þar. Ekki bætti úr skák að þessi drengur kom greinilega úr ríkri fjölskyldu, hann gekk í dýrum fötum sem þó fylgdu ekki tísku hinna krakkana, en það merkilegasta af öllu var þessi forláta gemsi sem hann hafði! Hann var allra nýjasta gerð, meira að segja 5896645 en ekki 5896644 eins og Donni stóri hafði.

Þetta reitti Donna til reiði, og hann vildi fara og lúskra á drengnum og taka símann fyrir sjálfan sig. Þessi Donni kemur frá mjög ríku heimili og er ekki vanur að tapa í keppni efnislegra gæða sem er í gangi í skólanum á hverjum degi. Hann talar við klíkuna og skipar þeim að tala ekki við veslings innflytjandann, hann er skítugur, pabbi hans sagði honum það, hann borðar annað fólk! Fólk með svona hörundslit er bara skítur, segir hann, og hann er ekki einu sinni skírður! Þar að auki, hann hefur hníf, og hann mun nota hann til að borða ykkur öll! Það réðst einu sinni svona surtur á pabba minn, og hann hefði örugglega borðað hann ef ég hefði ekki rekið hann á brott!

Klíkan þorir ekki öðru en að hlýða, og því lengur sem hann er einangraður því meira byrja börnin að fyrirlíta hann. Fólk hræðist það sem það skilur ekki. En þetta er ekki nóg fyrir Donna, hann ákveður að taka vin sinn Jonna og klíkuna og lumbra alvarlega á þessum trúvillingi. Auðvitað fylgir Jonni eftir, hann hefur engar skoðanir fyrir sjálfan sig.

En þegar talað er við klíkuna hikar hún, hún er ekki tilbúin til að lemja drenginn. Þeir höfðu séð einhversstaðar að það væri ljótt að ráðast á fólk af öðrum kynþáttum. Sumir rísa upp og mæla aktívt á móti þessu, en nokkrir, meðal annars litli norðlenski drengurinn Gísli sem hyllir Donna sem átrúðanargoð, stekkur upp og pípir stuðning sinn. Donni, sem yfirleitt þolir Gísla ekki, er nú allt í einu ánægður með hann.

Nú missir Donni þolinmæðina og ákveður að fara og lumbra á útlendingnum og að gera það sem hann segir ekki frá en flestir vita að hann muni gera, taka símann fyrir sjálfan sig. Hann og Jonni, með Gisla og fleiri lítilmögum hrópandi hvatningarorð, gengur upp að Ahmed litla og þeir lemja hann í klessu, enda báðir stærri en hann. Það furðulega er að hann tekur ekki í á móti, en það stöðvar þá þó ekki í barsmíðunum. Donni er nú fremur klaufskur og slær Jonna nokkrum sinnum í ógáti. Klíkan horfir á.

Þegar Ahmed er orðinn meðvitundarlaus grípur Donni símann, og reynir varla að fela það. Hnífurinn sem hann átti að hafafinnst aldrei, en hann skiptir engu máli lengur. Donni sagði að það væri hnífur, þá er hnífur. Þetta er það einfalt, pípir Gísli við klíkuna. Donni mun koma og refsa þeim sem mótmæltu, hann mun lemja ykkur alla, en ekki mig, ég er besti vinur hans.

Og Ahmed? Hann er tekinn úr skólanum. Hann unni sér ekki í siðmenntuðum, Íslenskum skóla, hann á einfaldlega að fara heim sem fyrst, við viljum ekkert með hans hyski að gera.

Og sólin skein…
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane