Èg er feministi og karlmaður á sama tíma. Feminisminn var upprunalega uppgjör kvenna við kynjasamfélagið sem hélt aftur af þeim, og kom í veg fyrir að þær tækju þátt í samfélaginu til jafns við karlmenn. Eftir mikla baráttu fékkst í gegn að konur ættu rétt á því að vinna og fá jafn há laun og karlmenn, nema við menntaskóla og háskóla, þær ættu rétt á að stjórna því hvenær þær yrðu óléttar og svo fátt eitt sé talið. Þó þetta sé ekki allt 100% komid í gegn að þá hefur tekist að sannfæra almenning um að svona eigi það að vera og enginn stefnir aftur að hugmyndinni um eina fyrirvinnu og heimavinnandi húsmóður. Fyrir þetta er ég þeim ævinlega þakklátur! Því ekkert hefur frelsað karlmanninn eins mikið og baráttan fyrir kvennfrelsi. Karlmenn kynnast í dag mun oftar börnum sínum, þeir eru meira sjálfbjarga þar sem þeir kunna að elda og þvo af sér. Þeir hafa meira frí frá vinnu þar sem konan vinnur líka fyrir heimilinu. Skilningur beggja kynjanna á erfiðleikum sem geta fylgt bæði vinnu utan og innan heimilisins hefur aukist og tel ég það hið besta mál. Einnig hefur aukist kynferðismeðvitund kvenna og er ég MJÔG ánægður með það og er það mikill kostur fyrir karlmenn. Svona gæti ég haldið áfram að tala um ágæti kvennfrelsisbaráttunnar fyrir samfélagið en það var ekki það sem átti að vera aðalhluti þessarar greinar. Jafnréttisbarátta feminista hefur hingað til verið leidd af konum, sem ber að þakka fyrir störf sín í þágu samfélagsins, en það er mikilvægt að við karlmennirnir fylgjum nú loksins á eftir og krefjumst jafnra réttinda á því sem eitt sinn var einveldi kvenna, heimilið og börnin. Karlar hafa ekki enn unnið full réttindi á eigin heimili. Sem dæmi má taka að karlmenn vinna nánast aldrei forræði yfir börnum sínum, þeir alast upp í kvennmótuðum skólum sem ekki tekur tillit til þeirra sem veldur vandræðum stráka í skólakerfinu, en nú er komið svo að þeir eru aðeins um 1/3 af háskólanemum og sérstaklega fámennir í uppeldis og umönnunarmenntunum. Ef við ætlum að geta verið feður barna okkar með sæmd verðum við líka að geta verið til staðar fyrir börnin okkar. Karlmenn eiga mun erfiðara með að fá frí úr vinnu vegna veikra barna, þeir fá lítið fæðingarorlof og eiga almennt erfiðara með að fría tíma sinn til að geta verið með börnunum sínum. Það sem gerist er að fyrir börnum verður mamma sem elskar mig og pabbi sem borgar. Hvað gerist svo ef kemur að skilnaði? Maðurinn stendur eftir án fjölskyldunnar sinnar! Alveg sama hversu erfitt sem það getur verið að vera einstætt foreldri að þá er mun verra að missa svona fjölskylduna sína. Maður sem ég kynntist um daginn hefur unnið á sjó í 30 ár og alltaf séð fyrir sinni fjölskyldu og alltaf borgað undir dætur sínar tvær allt sem þeim vanntaði en þegar kom að því að þau hjónin skildu að þá sat hann uppi einn, kunni ekkert að elda, hafði aldrei sett í þvottavél og án fjölskyldu. Dæturnar sem hann elskaði tóku að sjálfsögðu hlut konunar vegna þess að hún var sú sem hafði alið þær upp. Konan hans átti svo í öðruvísi vandamáli þar sem hún gat varla séð fyrir sjálfri sér. Jafnréttisbaráttan er ekkert minna mikilvæg fyrir karla en konur og það hefur vanntað sárlega að það heyrist eitthvað frá karlmönnum um hvað þeir vilja.

Því segi ég:
Karlmaður; sæktu krakkana á leikskólann, þrífðu og eldaðu mat. Annars verðuru alltaf gestur á eigin heimili.