(Mitt innlegg í fegurðarumræðuna)

Þjóðverjinn Friedrich Nietzsche er nú frægur fyrir margt, en þó einna frægastur (held ég) fyrir tvennt: Annars vegar greiningu sína á siðferðinu, og hins vegar kenninguna um ofurmennið.
Siðferðið, eða öllu heldur rætur þess, greindi hann í tvennt. Fyrri tegundin er daglega kölluð „herrasiðferði“. Þetta er siðferði „herranna“ eða „höfðingjanna“, eins og nafnið bendir til. Þeir eru stórir og sterkir, hraustir, harðgerir, og jafnvel dálítið ofbeldishneigðir (en samt á „gáskafullan“ hátt). Þeir hafa heilsteypt viðhorf til lífsins; hugsanir, orð og athafnir eru í samræmi hjá þeim. Þeir eru hins vegar ofbeldishneigðir, þeir líta niður á múginn og svo framvegis (hugsið um japanska samúræja sextándu og sautjándu aldar, evrópska riddara, og aðalinn almennt).

Á móti þessu kemur svo þrællinn. Hann er ekki ættgöfugur, stór eða sterkur, né neitt annað í þeim dúr. Viðhorfið til lífsins er allt annað og öðruvísi. Hann getur ekki sagt „Ég er góður“ á sama hátt og herrann. Það sem verra er: Hann er undirförull og sviksamur. Hann hefur ekki styrk herrans eða slíkt, og verður því að beita öðrum brögðum til að vernda sig og sína. Þar sem hann getur ekki lyft sér upp á svið herrans, þá er aðeins um eitt að ræða, og það er að draga herrann niður til sín. Honum tókst það líka; kristið siðferði var það sem Nietzsche hafði helst til marks um sigur þrælasiðferðisins. Þar er lögð áhersla á dygðir eins og hógværð, auðmýkt og fyrirgefningu – andstætt dygðum herranna: Stolt, heiður og hefnd (svo aðeins nokkur dæmi séu tekin úr báðum herbúðum).

Nietzsche fjallaði líka dálítið um þriðju manngerðina: Ofurmennið. Það er algengt að ofurmennið sé sagt hafa herrasiðferðið. Þannig var t.d. skilningur nasista á hugtakinu – þeir voru ofurmenninn, herrarnir, og máttu gera það sem þeim sýndist við hina, þrælana eða undirmennin. Skemmst er frá því að segja að þeir höfðu alrangt fyrir sér í þessum efnum, eins og flestum öðrum. Ofurmennið er nefnilega mun líkara þrælnum í flestum efnum. Raunar er einn helsti munurinn á því og þrælnum sá, að það er heilsteypt í afstöðu sinni til sín og lífsins. Það er ekki undirförult eins og þrællinn – en það er alls enginn ruddi eins og herrann. Það sem meira er: Ofurmennið væri algerlega óhugsandi ef þrællinn hefði ekki komið fram fyrst.

Hvar kemur svo ljóta fólkið inn í málið? Hvað á þrælslundað fólk sameiginlegt með hinum ófríðu? Í sem fæstum orðum þetta: Þar sem að það getur ekki gert sig fallegt eftir ríkjandi stöðlum, þá getur það reynt að breyta fegurðarstöðlum, lagt áherslu á innri fegurð og þess háttar. Það getur barist gegn fegurðarsamkeppnum, gegn því að ófrítt fólk í auglýsingum sé nær alltaf til þess að fá fólk til að hlæja, eða gegn því að vonda fólkið í kvikmyndum sé nær alltaf ljótt. Hægt og rólega gæti því jafnvel tekist að bylta viðteknum fegurðarstöðlum, og jafnvel fengið fólk til að trúa á innri fegurð og þess háttar.

En veitum því athygli sem sagt var um þrælinn. Hann undirbýr jörðina fyrir ofurmennið. Hvað ætli ljóta fólkið muni láta leiða af sér?
All we need is just a little patience.