Ég gerði nýlega söguritgerð um byltinguna á Kúbu árið 1959 þar sem ég rak þróun hennar, orsakir og afleiðingar. Eftir að hafa lesið mig vel til um byltinguna og skrifað ritgerðina sannfærðist ég um að Fídel Kastró og kumpánar hans vildu gera Kúbu að betra landi. Þeim tókst það að mörgu leyti en að sumu leyti alls ekki. Nýlegar fréttir segja frá handtökum og aftökum á andstæðingum Kúbustjórnar, meiri og fleiri en í langan tíma og hugsanlega í skjóli stríðsins í Írak.

Í byrjun aprílmánaðar var farið með mál 78 stjórnarandstæðinga fyrir dómstóla en réttarhöldin voru lokuð almenningi og fjölmiðlum. Kúbustjórn vill aðeins segja að þessir 78 séu ákærðir fyrir að hafa í hendi áætlun um að steypa Kastró af stóli og eitthvað í þeim dúr. Bandaríkjastjórn hefur harðlega gagnrýnt handtökurnar, segir réttarhöldin vera skrípaleik og lýsir þessu sem stalínistískum aðferðum. Þá er athyglisvert að minna á að fyrrv. einræðisherra Kúbu var einmitt studdur af Bandaríkjunum þó svo að hann kúgaði Kúbverja og lét myrða stjórnarandstæðinga, allt fyrir hagsmuni bandarískra fyrirtækja.

En hvað um það. 30 af þessum 78 hafa verið dæmdir til fangelsisvistar ogg það er sko enginn barnaleikur. Maður að nafni Omar Saludes fékk 27 ára fangelsisdóm aðeins fyrir að vera óháður blaðamaður og hugsanlega gagnrýna ríkisstjórn lands síns. Hinir fengu um 15-30 ára dóma. Flestir þessara einstaklinga voru handteknir fyrir að gera það sem ég myndi kalla sjálfsögð mannréttindi, t.d. að lýsa skoðunum sínum opinberlega. Svo eru dómarnir svo óeðlilega háir að maður gæti haldið að verið væri að dæma barnanauðgara.

Sameinuðu þjóðirnar fordæma handtökurnar og ályktun ein um að senda mannréttindaeftirlit SÞ til Kúbu var samþykkt. Kúbustjórn segir hins vegar enga þörf á slíkri heimsókn þar sem handtökurnar hafi farið löglega fram, þ.e. í gegnum dómstóla, og að ályktunin hafi aðeins verið samþykkt vegna þrýstings frá Bandaríkjastjórn. Það gæti vel verið rétt, en ég fer ekki meira í það.

Eins og ég sagði í byrjun greinarinnar þá eru þetta mestu fjöldahandtökur sem hafa verið gerðar í frekar langan tíma og mjög skrýtið hvers vegna Kúbustjórn gerir þetta. Samskipti hennar við önnur lönd hefur farið batnandi á síðustu árum og það var augljóst frá upphafi að þessar handtökur myndu skaða þau. Svo hafði stjórnin einnig slakað mjög á eftirliti á sjálfstæðum gjörðum einstaklega síðustu ár, eða alveg síðan fyrstu árin eftir byltinguna.

Það er umhugsunarefni af hverju Fídel og félagar hans láta svona, en það er hins vegar ljóst að slík hegðun gengur ekki. Fyrir um hálfu ári síðan var ég hugsanlega svokallaður fídelisti og er kannski enn að einhverju leyti, þó álit mitt á kauða hafi minnkað mikið eftir að ég las fréttirnar um þessar handtökur.

Félagi Fídel getur gert betur. Hann verður að gera betur.

kv.
miles.