Eftir að hafa notað Huga reglulega í töluverðan tíma er ég nú að hugsa um að hætta því. Ástæðan fyrir því er sú að ég hef tekið eftir því í auknu mæli á undanförnu ári að flestar umræður virðast leysast upp í vitleysu og rugl og þá sérstaklega á Deiglunni.

Þegar ég kynntist Huga.is í fyrsta skipti sá ég fyrir mér málefnalegar umræður um hins og þessi mál. Lengi vel þá fékk ég það sem ég var að leyta eftir, en svo er ekki lengur. Svo virðist sem umdeildar umræður fari fljótt í “Pabbi minn er lögga” farveginn þar sem rök og gagnrök eru fjarri góðu gamni.

Fólk virðist mjög fljótt fara í að styðja sína skoðun á málum með hreint út sagt fáránlegum hlutum og jafnvel gengur það svo langt að fólk fer að saka næsta mann um heimsku og þaðan af verra vegna þess að það er ekki sammála um hluti. Ég ætla ekki að fara að nefna neinar sérstakar greinar en ég hef séð þetta víða.

Ef einhver sem les þetta hefur gert rökfærsluritgerð(líklega flestir) þá áttiði þið ykkur á hvað ég er að fara. Þar þíðir ekkert að koma með eitthvað bull með og á móti. Enda flokkast það ekki sem rök. Að fólk geti ekki haft skoðanaskipti um hluti á mannsæmandi nótum finnst mér allveg útí hött.

Ekki veit ég hvað um veldur þessu en mér dettur fyrst í hug ungur aldur notenda. Þegar ég sé fullyrðingar eins og “Sjálfstæðismenn eru fífl!” þá á ég erfitt með að ímynda mér að bak við það lyklaborð sé einhver fermingardrengurinn að fá útrás fyrir óþroskuðum hugmyndum sínum. Vissulega eru sumar umræður til fyrirmyndar en flestar myndu t.d engin dagblöð birta.

Þetta ástand dregur úr áliti fólks á Huga í heildsinni og það nennir ekkert að taka þátt í svona umræðum. Ég er einn þeirra. Ég hef ákveðið að rita ekki fleiri greinar hér á huga, a.m.k. ekki á meðan umræðan er svona.

Er þetta Huginn sem við viljum??
Magnus Haflidason