Í fréttunum í gær var sýnt frá fólki um allan heim sem hefur ákveðið að sniðganga bandarískar vörur sem mótmæli gegn stríðinu í Írak.

Þessi tegund mótmæla á sér rætur að rekja til Dr. Martin Luther King og baráttuna sem hann leiddi í frelsis baráttu blökkumanna í Bandaríkjunum. Það sem var alltaf efst á blaði hjá Martin var að mótmælin yrðu að vera friðsöm. Hugmyndafræðin var að skapa samkennd hjá hvíta fólkinu og láta það skilja stöðu blökkumannsins.

Eftir að Rosa Parks var handtekin fyrir að neita að láta sætið sitt í strætó hvítum manni var ákveðið að þetta gæti ekki gengið lengur. Mótmæli hófust og var Martin Luther King kjörinn leiðtogi mótmælanna. Martin var nýútskrifaður úr háskólanum í Boston og nýlega búinn að taka við preststöðu í Dexter kirkjunni í Montgomery, Alabama. Hann hafði heyrt um baráttu Gandhi og ákvað að hafa baráttu aðferðir hans að leiðarljósi. Ákveðið var því að sniðganga strætóana þangað til að breytt yrði lögunum um mismunun svartra og hvítra. Þetta hafðist á endanum eftir mikil erfiði. Eftir þetta tileinkaði Martin líf sitt baráttu blökkumanna fyrir jafnrétti. Aðferðir hans fólu í sér, meðal annars, að sitja fyrir utan staði þar sem hvítir fengu aðeins inngöngu og syngja baráttusöngva. Margir fóru í fangelsi. Þegar Martin var spurður hvort hann væri stjórnleysingi var svar hans:

“Á engan hátt berst ég fyrir sniðgöngu eða ögrun laganna…Það myndi leiða af sér stjórnleysi. Einstaklingur sem brýtur lög sem samviska hans segir að séu óréttlát, og sem mun samþiggja refsingu í formi fangelsunar til þess að vekja samvisku samfélagsins um óréttlætið, er raunverulega að tjá hæstu virðingu sína fyrir lögum.”

Þótt lögin segi kannski að það sem Bandaríkjamenn séu að gera sé löglegt, þarf ekki að vera að það sé rétt. Hvenær hefur það verið réttlætanlegt að myrða saklaus börn? Hvar stendur það hagsmunir eins hóps séu mikilvægari en líf? Við berum öll ábyrgð á þessu stríði. Því með því að gera ekki eitthvað, erum við þegjandi að samþykja þetta stríð.

“Óréttlæti hvar sem er, er ógn við réttlæti hvar sem er. Við erum ofin saman í gagnkvæmum og óumflýjanlegum vef, ofin saman í flík örlaganna. Allt sem hefur bein áhrif á einn, hefur óbein áhrif á okkur öll.”

Við getum risið upp og látið í okkur heyrast, við getum sniðgengið bandarískar vörur og þjónustur, truflað fyrir dreifingu þessara vöru, ef við erum tilbúin að taka afleiðingunum þegjandi, án ofbeldis. Hvað gerist næst ef þetta stríð er látið viðgangast? Hvaða þjóð er næst? Hvaða börn deyja þá?

“Við verðum að læra að standa saman sem bræður eða glatast í sameiningu sem fífl.”

Og nú er að heyra frá ykkur, hvað erum við tilbúin að gera, ef eitthvað? Er þetta stríð réttlætanlegt? Kemur það okkur ekkert við? Eru þessi börn sem eru að deyja eitthvað frábrugðin börnum okkar, systkinum okkar, vinum okkar? Hvað ætlum við að gera?