Það er rigning í Hong Kong. Það er rigning í heiminum. Það er rigning í sálu minni.

Það er staðreynd. Fréttirnar sem heimurinn hefur staðið á öndinni eftir í 3 mánuði. Bandaríkjaher hóf árás á Írak, nánar til tekið Bagdad varla klukkutíma eftir að 48 klukkustunda frestur George Bush rann út. Þetta kom heiminum í opna skjöldu en allan gærdag og jafnvel í morgun voru fréttir um að Bandaríkin myndu ekki hefja árás þessa nótt vegna þess að þegar 48 klukkustunda fresturinn rann út var einungis eftir um 2 tímar þangað til sólin kæmi upp og haldið var að árásin myndi hefast að næturlagi. Svo var ekki.

Nokkrum mínútum eftir árásina hélt George Bush ræðu frá Hvíta Húsinu þar sem hann tilkynnti opinberlega að árásin á Írak væri hafin. Hann endurtók flest allt sem hann hefur verið að segja á síðustu mánuðum þar á meðal að Bandaríkin hefði engan metnað þegar kæmi til Íraks nema að frelsa íbúa landsins frá ríkidæminu sem ríkir þar. Persónulega stórefast ég um þetta. Getur einhver sagt olía? Hann endaði síðan á hinum venjulega punkti þar sem hann bað Guð að blessa Bandaríkin og alla stuðningsmenn þess.

Nokkru síðar sjónvarpaði írösk sjónvarpsstöð ‘beinni’ útsendingu af ‘Saddam Hussain’ þar sem hann fordæmdi árásina og hvatti landa sína til þess að nota sverð sín og sálu sína til þess að berjast á móti hinu illa sem hann vonaði að myndi fara til helvítis. Hann sagði að þetta stríð væri heilagt stríð og að Írak myndi sigra að lokum í þessu uppgjöri.

Að sögn Bandaríkjamanna var fyrsta árásin hernaðarlegt tækifæri sem varð að nýta og ekki mátti láta þetta sleppa. Grunað er að takmarkið hafi verið að deyða vissa stjórnarmeðlimi í valdahring Saddams Hussains, en svo er ekki víst. BBC hefur verið með stanslausar fréttir af Írak síðan ég fór framúr og engin veit hvernig framhaldið verður. Þetta kom öllum í opna skjöldu ekki einungis vegna þess að þetta var framið í dagsljósi heldur vegna þess að þetta var smávægileg árás þegar búist var við mikilli árás frá öllum áttum, landi, láði og lofti.

Nú spyr ég Íslendinga: Viljum við sem þjóð taka þátt í þessu stríði, þessu ‘heilaga stríði’? Ég horfði á fund hjá Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna síðustu nótt þar sem Hans Blix tjáði sorg sína yfir því að hann og vopnaeftirlitsstarfsmenn hans gátu ekki klárað starf sitt. Það hafa enn ekki komið fram sannanir fyrir efna-eða kjarnavopnum af neinu tagi innan Íraks eftir því sem hann segjir. Það eru hreinlega ekki neinar sannanir.

Stór spurning er: Af hverju núna? Eftir tólf ár hvað er það sem ýtir undir þessa árás? Hvað er ástæðan á bakvið áætlun Bush? Af hverju er svona mikil asagangur að leggja til árásar á Írak en ekki þegar virkilegar sannanir um ólögleg vopna hafa komið fram? Þetta eru spurningar sem hvorki Bandaríkin né Bretland hafa getað svarað. Ég er virkilega forvitin.

Ég vil ekki fara út í þá umræðu á þessum tíma hvaða afleiðingar þetta stríð gæti haft í för með sér því að það myndi taka alltof langan tíma. Stærsta áhættan er að þetta gæti einfaldlega leitt til þriðju heimstyrjaldarinnar sem hreinlega gæti eytt heiminum, miðað við ótrúlegt magn kjarnorkuvopna í heiminum. Þetta er bara ein af óteljandi mörgum ástæðum fyrir því að þetta stríð séu hræðileg mistök. Ég eftast ekki um að þið getið talið upp fleiri afleiðingar.

En eitt að því sem syrgir mig mest í þessu öllu saman er þáttaka Íslands í þessu stríði. Þegar ég las það á mbl.is í gær að Íslandi væri eitt af 30 löndum á opinberum lista Bandaríkjanna yfir þau lönd sem studdu sig trúði ég ekki mínum eigin augum. Ég hef sjaldan, eða aldrei óskað þess eins heitt að Íslandi myndi skipta um ríkisstjórn, og sparkað Davíð Oddsyni út. Og trúið mér, ég hef oft gert það. Þegar Bush nefndi stuðningsmenn Bandaríkjanna í ræðu sinni og hvernig þau lönd væru að styðja þessa árás fékk ég tár í augun og ég nötraði af reiði. Hvernig getur ríkisstjórnin gert þetta án þess að spurja kóng eða prest? Satt er það að ég er ekki á landinu akkúrat þessa stundina en miðað við þær litlu upplýsingar sem ég hef fengið þá grunar mig að þetta sé ekki mál sem mikið hefur verið rætt um á Alþingi.

Þetta er ekki einungis spurning um sanngirni heldur einnig um þær ástæður sem Davíð gefur fyrir stuðningnum. Þetta var haft eftir honum á mbl.is:

“Í þessu felst í fyrsta lagi heimild til yfirflugs yfir íslenska flugumsjónarsvæðið. Í öðru lagi heimilum við afnot af Keflavíkurflugvelli ef þurfa þykir. Í þriðja lagi tökum við þátt í uppbyggingu í Írak eftir að ófriði lýkur. Í fjórða lagi tökum við pólitíska afstöðu með því að ályktun 1441 verði fylgt eftir, að loknu fjögurra mánaða þófi,”

Að mínu mati virðist ástæðan einungis vera út af því að Bandaríkin eru með herstöð og flugvöll hér á landi. Það er alveg fáránleg ástæða. Hann gefur ekki upp neina ástæðu fyrir því að þeir gátu ekki beðið eftir vopnaeftirlitsmönnunum, eða neitt sem viðkemur Íslandi sem þjóð.

Þetta upphefur spurninguna um staðsetningu herstöðvarinnar á Íslandi sem hefur verið óleyst mál á Íslandi á áratugi og verður að leysast. Ég man að eftir 11. september voru áhyggjur yfir því að árás yrði gerð á Ísland einungis vegna staðsetngar herstöðvarinnar þar. Þetta er ástand sem ég get ekki liðið. Að traust, trú og öryggi okkar lands lyggi einungis á öxlum Bandaríkjanna.

Það er hörmuleg tilfinning að vera nemandi í alþjóðlegum skóla sem hvetur til friðar og þurfa að horfa upp á sitt eigið land hlaupa inn í stríð án raka eða ástæðna. Hvernig get ég auglýst og vakið áhuga og athygli á landinu þegar ég get ekki verið sammála stjórnarskoðanna ríkistjórnarinnar og það sem verra er fundins eins og ríkisstjórnin sé að svíkja mig.

Ég hvet alla Íslendinga sem eru staðsettir á landinu að mótmæla hátt þessari stöðu og krefja ríkisstjórnina um alvöru svör. Ekki endurtekningar á því sem Bandaríkin og Bretlandi hafa haldið fram. Það eru ekki svör, ekki nógu góð svör. Ekki halda það í eina mínútu að ég sé ekki á móti meðferð Saddams á samborgurum sínum og að ég sé ekki meðvituð um þau hræðilegu mannréttindabrot sem hafa átt sér stað í Írak. Þetta eru stór og hroðaleg vandamál. En þau eru vandamál sem hefðu getað verið leyst á annan hátt, án átaka.

Stríð er aldrei lausn heldur grunnurinn að eyðileggingu mannkynsins.

“I know not with what weapons World War III will be fought,
but World War IV will be fought with sticks and stones.” – Albert Einstein.


Sigríður Jónsdóttir
Li Po Chun United World College of Hong Kong