Ég er 22ja ára gamall, og stunda nám í Fjölbraut við Ármúla. Kveikjan að þessari grein var greinin “Frjáls mæting í Framhaldsskólum”, en þó var ég búinn að hugsa um þessi mál í nokkurn tíma.

Umfjöllunarefnið mitt er “Kennsluhættir í framhaldsskólum landsins”, en brottfall nemenda úr framhaldsskólum er gríðarlega hátt á íslandi miðað við önnur lönd og vil ég reyna rekja ástæður þess aðeins.

Ástæðurnar fyrir þessu brottfalli eru margvíslegar, mætti nefna einhæfa námsmöguleika, félagslegar aðstæður o.fl.

En ég vil þó fjalla um þetta mál frá minni hlið, af minni reynslu þar sem ég var einn af þeim sem hætti í framhaldsskóla 18 ára, en byrjaði reyndar aftur 22 ára (í fyrra). Er ég búinn að þroskast mjög mikið á þessum tíma og lít á skólann allt öðrum augun en ég gerði. Hef ég nú miklu meiri áhuga og vilja til að læra það sem er kennt.


Ég er sjálfur í Fjölbraut við Ármúla, eins og ég sagði, orðinn 22 ára, en ég mæti alltaf og stend mig mjög vel. Hef mikinn áhuga á náminu og reyni að sinna því eftir bestu getu. En þetta er að verða ansi þreytandi, það virkilega tekur á að vera í skóla.

Dagurinn byrjar kl 8, vakna kl 7, byrjar á því að fara í fyrsta tímann sem er einn klukkutími, eftir þann tíma hef ég 5 mín til að ganga í næstu kennslustofu sem getur verið hvar sem er í skólabyggingunni, og eftir þann tíma fæ ég 20 mín hlé, get keypt mér trópí eða kókómjólk í sjoppunni. Og svo byrjar strembið aftur, burðast með 15kg þunga skólatösku upp og niður stiga allan daginn. Ég er þó einungis með skólatösku, sumir eru með ferðatölvu og íþróttatösku auk skólatöskunnar, vil ég ekki ímynda mér hvernig þeim líður. Sjálfsagt eru þeir með einhverja skápa á leigu og geta sett dótið þangað, en það þýðir bara meira labb milli tíma.

En eitt varðandi þessa sjoppu í FÁ, hún er með mjög takmarkað úrval af mat, aðallega samloku, trópi, mjólk, skyr. Hún er aðallega með gos og mikið úrval af sælgæti. Enginn heitur matur í boði fyrir nemendur í hádeginu, og 10 mín labb í næstu búð eða matsölustað. Hádegismatarhlé er 30 mín, en hvernig á maður að komast á þeim tíma til að kaupa sér góðan heitan hádegismat þegar það tekur um 15-20 mín bara að ferðast, fram og til baka. Enda sé ég ekkert annað en frekar daufa nemendur í tíma eftir hádegi í skólanum, lifandi á kók í dós, kaffi, sígarettum, og mars stykki. Hvernig væri að bjóða nemendum upp á heitan hádegismat? 800 manna skóli og ekkert mötuneyti? Engin furða að flestir nemendur líta hræðilega út, gráfölir og útúrsykursýrð andlit. Get ég trúað að þetta ástand ríkir í öðrum skólum.



Er ég í um 5-6 áföngum á hverjum degi, allir áfangarnir kenndir fjórum sinnum í viku, langflestir eru kenndir fjóra daga í röð! Svo er sett fyrir heimaverkefni til að vinna hvern einasta dag! Þannig að maður er að vinna heimaverkefni á hverju einasta kvöldi fyrir um 5 áfanga, en það er með örfáum undantekningum sett fyrir.
Svo mætir maður daginn eftir og kennarinn undrast afhverju maður er ekki búinn að gera heimaverkefnin, hann bara skilur ekki afhverju ég vann þau ekki. En það sem kennarinn veit ekki er að strax eftir skóladaginn, um kl. 17:00, þá fór ég að vinna og kom ekki heim fyrr en um 21:00. En hey, þá hef ég tvo heila klukkutíma til að gera öll heimaverkefnin (ef ég ætla að ná 8 tíma svefn, sem næst aldrei).

Já, furðulegt að maður sem er búinn að vera að í 14 tíma stanslaust hafi ekki smá orku í að gera heimaverkefni fyrir 5 áfanga? Furðulegt fyrir þá sem eru ekki í þeim sporum, skólastjórnendur, kennarar og ráðherrar!


Það myndast gífurleg pressa á nemendur þarna, og kennarar verða sífellt fúlari yfir því að nemendur eru ekki búnir að gera heimaverkefnin sín. Maður tekur eftir þessu, kannski 3-4 nemendur af 20 manna bekk sem eru búnir að gera heimaverkefnin.

En afhverju er þetta svona? Frítími nemenda er í LÁGMARKI, og ÁLAG á nemendur er í HÁMARKI. Þarna er verið að búa til væntanlega viðskiptavini Tryggingastofnunnar, fólk sem hefur kikknað undan álagi og endað á stofnun. Er lífsgæðakapphlaupið orðið svona gríðarlega hratt og mikið að það er einsog heimurinn farist ef börnin undirbúi framtíð sína ekki a.m.k. 12 tíma á dag? Þau lifa nú ekki lengi ef þau eru látin sitja alla sína æsku inni í einhverri skólastofu með dregið fyrir gluggana og undir sífelldri pressu um að gera heimaverkefni.




En einsog ég sagði, þá hóf ég aftur nám í fyrra, byrjaði á vorönn 2002 með því að fara í kvöldskóla í Iðnskólanum í Reykjavík, tók þar 3 fög sem var aðeins kennt einu sinni í viku. En viti menn, ég fékk 10, 9 og 8! En hvernig stenst þetta? Þarna var bara kennt einu sinni á viku, 80mín í senn, fyrir hvern áfanga. Samtals 240 mín á viku fyrir 3 áfanga og samt fæ ég svona góðar einkunnir? Hérna er þetta svart á hvítu!:


Vorönn 2002 (var í 100% starfi)
Áfangar: 3
Vikufjöldi: 13
Mín á viku í skóla: 240
Samtals mín á önn: 3.120
Meðaleinkkunn: 9

Haustönn 2002 (er í 33% starfi)
Áfangar: 6
Vikufjöldi: 15
Mín á viku í skóla: 1.460 (þar af 200 sem eru innifalin hlé og göt)
Samtals mín á önn: 21.900
Meðaleinkunnn: 8

Ég eyði núna þrisvar sinnum meiri tíma í að ná einum áfanga, og það fyrir lakari einkunnir. Virkar það virkilega að lengja skólaárið, lengja skólavikuna, hafa fleiri tíma á viku o.s.frv? Ég segi NEI, a.m.k. ekki fyrir mig. Miðað við þann tíma sem ég eyddi í þessa áfanga á síðustu önn þá hefði ég átt að fá 10 í þeim öllum, miðað við vorönnina.

Maður þarf að hafa tíma, tíma fyrir andlega og líkamlega heilsu, tíma fyrir fjölskyldu, tíma fyrir köttinn, tíma fyrir mat, og síðast en ekki síst, tíma til að LÆRA HEIMA!

Ég segi MEIRI FRÍTÍMA, MINNI SKÓLATÍMA. Ef nemendur hafa virkilega áhuga á náminu þá geta þeir notað frítíma sinn til að læra heima!

Ég vil hafa styttri annir (9 vikur fínt), 80-120 mín kennslustundir skila sér vel, og aðeins kennt einu sinni á viku í hverju fagi. Sniðugt væri að kenna einungis á þriðjudögum og fimmtudögum.

Ég vil koma þessari pressu af nemendum og yfir á kennarana. Ég vil pressa á kennarana að skila námsefninu vel til nemenda, skipuleggja tímann, gera námsefnið skiljanlegt o.s.frv. í staðinn fyrir einhverja ómarkvissa kennslu, tímasóun og útúrdúra.


Það er fáránlegt að lengja kennsluárið, og þar af leiðandi stytta sumarfríið. Langflestir nemendur vinna í sumarfríinu til að eiga pening þegar þeir snúa aftur í skólann. Með því að stytta tímann sem þau geta unnið þá geta þau engan veginn séð fyrir sér í skólanum og þar af leiðandi neyðast til að vinna með skóla. Þar af leiðandi hafa þau engan tíma til að sinna lærdómi og líkur á að þau hætti í skóla.



Einsog kennslunni í kvöldskólanum var háttað þá mætti maður í tíma, kennarinn byrjaði strax að kenna efnið. Kennarinn hafði meira að segja tíma til að blaðra við nemendur og láta nemendur reikna eða gera verkefni í tíma. Hvað þarf meira? Gaman að fá allt í einni bunu, fara svo heim og vinna úr því og hafa HEILA VIKU til þess!
Einsog kennslunni er háttað í dagskóla þá er kennarinn að fara út fyrir efnið, blaðra um eitthvað sem þér er alveg sama um, láta nemendur gera einhver tilgangslaus verkefni í tíma (og gefur þeim aðeins 1/3 af þeim tíma sem tekur virkilega að klára þau verkefni og maður verður stressaður, enda leggur maður núorðið ekkert mikið í þau verkefni, bara les smá yfir það, svarar tveimur spurningum kannski og slakar á).

Kennslan í dagskóla er ómarkviss, fólk er að mæta í tíma (eða ekki) og það er ekki verið að kenna námsefnið. Það leiðinlegasta sem ég veit um er að mæta í tíma og kennarinn segir öllum bekknum að gera heimaverkefni. Ég hefði nú alveg getað unnið þessi heimaverkefni ef tímanum mínum hefði ekki verið eytt í að mæta í skólann, bíða eftir kennaranum og svo hlusta á kennarann segja manni gera heimaverkefnin.


Og svo er fólk að furða sig á því afhverju það er léleg mæting, mikið brottfall o.s.frv.?

Iss piss…