Skilgreining (mín) á lygi, því að ljúga: Að setja fram fullyrðingu sem er ósönn, vitandi það að hún er ósönn á þeirri stundu sem hún er sett fram.

Eitt af því sem komið er í ljós eftir alla hina skrautlegu umræðu um fund Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og Hreins Loftssonar í London í fyrra er eftirfarandi:

Davíð fullyrðir að Hreinn hafi tjáð sér á þeim fundi að sá síðarnefndi íhugaði að segja af sér sem stjórnarformaður Baugs. Davíð fullyrðir ennfremur að Hreinn hafi ekki minnst þar á að hann ætlaði að segja af sér sem formaður einkavæðingarnefndar, eins og Hreinn heldur fram. Davíð bætir svo við að þegar Hreinn hafi að lokum tilkynnt honum um téða afsögn hafi það komið flatt upp á sig og honum þótt það fruntalega tjáð. Að svo komnu máli stendur orð á móti orði um tveggja manna tal. Þá kemur hins vegar í ljós að Hreinn sendi á sínum tíma fjölmiðlum fréttatilkynningu um afsögn sína sem formaður einkavæðingarnefndar, sem m.a. var birt í Morgunblaðinu. Í henni segir Hreinn frá því að hann hafi einmitt tjáð Davíð þessa ákvörðun sína á téðum Lundúnafundi. Enn stendur þá orð á móti orði eða hvað? Nei, reyndar ekki. Óhugsandi er að téð fréttatilkynning og efni hennar hafi farið fram hjá forsætisráðherra á sínum tíma, og að hann hefði látið hjá líða að bera efni hennar til baka ef hún hefði verið ósönn frásögn af fundi þeirra Hreins.

Davíð orðaði svona uppákomu best sjálfur á dögunum; Ef menn skrökva þá eiga þeir á hættu að lenda í glompum, en ef þeir halda sig við sannleikann þurfa þeir ekki að hafa áhyggjur af því. Sannleikurinn gengur alltaf upp.

Undanfarna vikur hafa margir keppst við að kalla Ingibjörgu Sólrúnu lygara, og fordæmt hana fyrir það hörðum orðum. Fróðlegt væri að heyra þeirra álit núna.