Ómar R. Valdimarsson, ritstjóri politik.is, hefur kært Jón Gnarr fyrir lagabrot vegna útvarpsleikriti sem hinn síðarnefndi flutti á útvarpsstöðinni Múzik 88,5. Af forsíðu politik.is:

"Hluti af leikritinu var eitthvað á þessa leið:

Ólafur: Pabbi, má ég fá ís?
Hannes: Nei, þú ert svo ógeðslegur og feitur.
Ólafur: Gerðu það pabbi.
Hannes: Ef þú kyssir mig.
[Ólafur kyssir föður sinn á munninn]
Hannes: Ekki á munninn, gefðu mér góðan koss á ennið og dragðu hárið frá áður en þú gerir það.
[Ólafur kyssir föður sinn á ennið]
Ólafur: Má ég núna fá ís?
Hannes: Já, en þú verður að fara úr fötunum og leyfa mér að taka myndir af þér allsberum.
Ólafur: Af hverju langar þig að taka myndir af mér berum?
Hannes: Ég ætla senda þær Lassa, pennavini mínum frá Noregi.
[Eftir smá þras við son sinn tekst Hannesi að fá hann úr fötunum og byrjar að taka af honum myndir]
Hannes: Vertu eggjandi! Þú ert tígrisdýr!
[Stuttu síðar lýkur leikþættinum]

[...]

Er þetta í lagi?
Í 209. grein almennra hegningarlaga segir: „Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum“ og í 210. grein sömu laga segir: „Hver sem flytur inn eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt.“ "

Nú er það dagljóst að þessi flutningur brýtur ekki á nokkurn hátt í bága við þessar lagagreinar. Ritstjórinn segir að sér hafi verið misboðið, en það er að öllu leyti hans vandamál. Það verður ekki séð af þeim texta sem ritstjórinn birtir að Jón Gnarr hafi haft uppi lostugt athæfi af nokkru tagi, svo ekki kemur til álita að 209. grein hafi verið brotin. Þá er því víðs fjarri að athæfið varði 210. grein.
Nú fannst ritstjóranum leikritið ófyndið, og er ekkert við því að segja. En að vera svo politik-lega korrekt að ætla eins manns flutning á útvarpsleikriti, sem engum dytti í hug að taka sem alvörugefið efni, vera einhvers konar barnaníðingshátt, þá á viðkomandi við alvarlegt vandamál að stríða, langt út fyrir skort á skopskyni. Það sem ritstjórinn afrekar í raun og veru er að gengisfella og gera lítið úr raunverulegum kynferðisglæpum með því að draga eins fáfengilegt efni inn í þann flokk.

Algerlega hliðstætt dæmi held ég að sé ítölsk kvikmynd með spéfuglinum Roberto Benigni (Vita e bella) sem fjallar um útrýmingarherferð á hendur gyðingum frá skoplegu sjónarhorni. Ætla mætti að Ómar R. Valdimarsson vildi ákæra Benigni fyrir þjóðarmorð, miðað við hneykslan hans á Jóni Gnarr.