Um og eftir nýliðna helgi fór fram mikil leit að tveimur mönnum sem var saknað þar sem þeir höfðu verði í vélsleðaferð á Langjökli.

Það tóku á þriðja hundrað manns þátt í leitinni á fjölda farartækja. Sem betur fer fundust þeir heilir á húfi, en þetta er heldur alls ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist. Menn týnast á hverjum vetri í lengri eða skemmri tíma og hópur manna leitar að þeim sólarhringum saman í slæmu veðri. Sem betur fer eigum við fyrsta flokks björgunarsveitir sem sinna sínu starfi frábærlega og oftast nær finnast hinir týndu áður en slys hljótast af. Kostnaðurinn við svona leitir eru mikill, auk þeirrar hættu sem menn leggja sig í. Björgunarsveitarmennirnir sem sinna leitinni eiga fjölskyldur ekkert síður en þeir sem týndir eru.

Ég er ekki endilega að fjalla um þessa tvo menn eða aðra sem voru á ferð á þessum tíma, en þetta gerist að mínu mati allt of oft. Í alltof mörgum tilvikum er verið að leita að fólki sem er að LEIKA SÉR úti í náttúrunni. Leika sér á vélsleðum, jeppum eða öðrum farartækjum. Það er líka eytt tíma og peningum á hverjum vetri í að leita að rjúpnaskyttum sem hafa villst af leið. Það virðist alltof algengt að menn fari upp til fjalla þegar veðurútlitið er slæmt og maður fær á tilfinninguna að þeir hugi ekki einu sinni að verðurspánni áður en haldið er af stað. Oft virðist eins og menn fari líka vanbúnir í fjallaferðir að vetri.

Mér finnst þessi umræða alltof sjaldan koma uppá yfirborðið og þegar það gerist þá koðnar hún fljótlega niður aftur. Hugsanlega er það vegna þess að flestir eru auðvitað fegnastir því að menn finnist heilir á húfi og leitin beri tilætlaðann árangur.

Það er spurning hvernig eigi að bregðast við þessu. það þýðir sennilega lítið að hafa einhverskonar tilkynningaskyldu því að margir myndu ekki sinna henni. Það er líka erfitt að taka upp einhverskonar sektir vegna þess þær myndu í sumum tilvikum bitna á þeim sem eiga þær ekki skildar. En sennilega tækist með því að fjalla meira um þessi mál að koma inn ábyrgari hugsun hjá þeim sem stunda útilíf.

Ég er ekkert á móti fjallaferðum eða ferðum um hina stórkostlegu náttúru Íslands og stunda oft slíkar ferðir sjálfur, en mér finnst að það þurfi að ræða þessi mál af meiri alvöru og á öðrum nótum en gert hefur verið til þessa, til þess að koma í veg fyrir slys og gera menn ábyrgari fyrir hegðun sinni á þessu sviði.