Eingin kjarna-eða eiturvopn hafa komið í leitirnar í Írak.
Engin óeðlileg tengsl við alþjóðlega hryðjuverkamenn hafa heldur komið í ljós.
Írak er veikara en það var fyrir 12 árum og á meira að segja í basli með að viðhalda tæknibúnaði í venjulegum iðnaði.
Hvers vegna leggur BNA svo mikið undir í þessari baráttu og er meira að segja á mörkum þess að fæla í burtu gamla samherja og þannig kljúfa NATO? Svarið er einfalt: Svart gull – olía.

Illar tungur herma að eftir olíukreppuna 1973 hafi skuggaráðuneytið í BNA smíðað þriggja þrepa leynilega áætlun til að snúa taflinu við og hún hafi hljóðað þannig: (1) Afla sér vina og áhrifa fyrir botni Miðjarðarhafs (Ísrael og spilltir olíufurstar); (2) ná fótfestu með varanlegu setuliði (rættist með herstöðvum í einræðisríkinu Saudi Arabia eftir Desert Storm); og (3) innrás sem kæmi á leppstjórn í olíuríki, sem mundi þýða veikingu eða endalok OPEC.

Síðasta skref áætlunarinnar var í biðstöðu í mörg ár vegna frétta um að gífurlegt magn olíu væri að finna undir Kaspíahafinu. Landfræði-pólitíkusar snéru spjótum sínum í austurátt og töldu daga OPEC svo gott sem talda. Nú hefur hins vegar komið í ljós að magnið undir Kaspíahafinu er 10 sinnum minna en menn héldu fyrir nokkrum árum og magn brennisteins í olíunni er allt of hátt. Gömlu innrásaráformin öðluðust líf á ný.

Þessi kenning hefur vankanta og kallar sérstaklega á eina spurningu: Hvers vegna lagði þá BNA ekki Írak undir sig í síðasta stríði og setti á laggirnar leppstjórn? Kannski var mikilvægara á þeim tíma að Írak, sem líklega hefði liðast í sundur og orðið þrjú ríki, var mótvægi við erkióvininn Íran. Hvert sem rétta svarið er þá er það ákaflega einkennilegt hve mikið BNA leggur undir í þessu máli, sérstaklega í ljósi þess að það er geðsjúklingur í N-Kóreu sem gerir allt (og meira) sem Írak er grunað um. Hann lumar á atómsprengjum (hefur tvær núna en getur framleitt eina á viku eftir nokkra mánuði)og er líklegur til að nota þær fyrr en síðar. Hann selur hverjum sem getur borgað vopn sem hann hefur – og því ekki atómsprngjur?
Það væri miklu vænlegra fyrir BNA að eyða pólitísku kapítali sínu í að losa sig við þennan brjálæðing. Ég spái því að þessi þráhyggja gagnvart Írak á meðan N-Kórea er látin sigla sinn sjó séu mestu pólitísku mistök á Jörðinni síðustu 65 ára.