Orðið bananalýðveldi varð til snemma á síðustu öld þegar bandarískur auðhringur réði hreinlega öllu í nokkrum ríkjum sunnar í álfunni, löndum sem ræktuðu banana til útflutnings og höfðu fáar aðrar tekjulindir. Áratugum saman keypti auðhringurinn banana á óeðlilega lágu verði með því að múta ráðamönnum. Ef það dugði ekki til þá var kallað á landgönguliða bandaríska hersins.

Þegar mestu auðlind íslensku þjóðarinnar, sjófanginu, var stolið þá þurfti ekki að kalla á neinn her. Þannig stöndum við tröppu lægra en upprunalegu bananalýðveldin. Veltið því fyrir ykkur – nokkur börn sem ekki einu sinni eru fædd í dag eiga fiskinn í sjónum í kringum Ísland! Slíkt getur aðeins gerst í bananalýðveldi.

Það gerist heldur ekki hjá þjóðum sem skilja leikreglur lýðræðis að framkvæmdavaldið (Davíð konungur) sé með sleggjudóma um einstaklinga eða fyrirtæki. Ef menn eru að brjóta lög þá sér dómsvaldið um að leiðrétta málið. Ef fyrirtæki komast upp með óhæfilegt okur vegna þess að leikreglurnar eru ekki réttar (t.d. okur Flugleiða á Íslendingum), þá er það leiðrétt af Alþingi (löggjafanum). Aðeins í þessu bananalýðveldi ákveður forsætisráðherra hver er sekur eða saklaus.

Gífurleg tekjuskipting, kolkrabbinn, Baugur og Íslensk erfðagreining (þar sem forstjórinn skammtar sér 60 milljónir á ári og lætur skattgreiðendur ábyrgjast allt klabbið) … þarf að segja það einu sinni enn: BANANALÝÐVELDI!