Sæl verið þið. Síðustu daga höfum við orðið vitni af einum fáránlegasta farsa í íslenskum stjórnmálum. Tveir vinir og sjálfstæðismenn Hreinn Loftsson og Davíð Oddson saka hvorn annan um lygi. Ekki ætla ég nú að kafa ofan í það mál enda ekki hægt að fá niðurstöðu því orð standa gegn orði.

Í dag miðvikudag 5. mars fékk ég DV heim til mín eins og vanalega. Mér blöskraði þegar ég sá forsíðuna. DV hefur gert könnun þar sem spurt er hvort fólk trúi Jóni Ásgeiri hjá Baugi. Niðurstaðan var sú að um 55 % trúðu því sem hann var að segja. Forsíðan er hins vegar svona: “Tæpur helmingur þjóðarinnar tortryggir Jón Ásgeir”. Þetta stendur með stórum stöfum. Af hverju er þetta sett svona fram. Staðreyndin er sú að MEIRA en helmingur þjóðarinnar trúir Jóni skv. þessari könnun. Það er svo greinilegt að DV með Óla Björn Kárason ritstjóra í farbroddi er áróðursmaskína fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Af hverju sjáum við ekki hvað fólki finnst um Davíð?

Ég hef tekið eftir að Óli Björn aðalritsjóri notar hvert tækifæri til að skjóta á Samfylkinguna. Hann harðskammaði Ingibjörgu Sólrúna eftir ræðuna í Borgarnesi. Nú er ég sammála honum í því en af hverju gagnrýnir hann ekki Davíð þegar hann segir að Stöð 2 sé að vinna með Samfylkingunni gegn sér. Þetta er nákvæmlega það sama, Gróusögur, en Davíð er ekki gagnrýndur.

DV er svo greinilega handbendi Sjálfstæðisflokksins. Í einni könnun fyrir nokkrum vikum mældist Sjálfstæðisflokkurinn með meira fylgi en R listinn. Þetta kom á forsíðuna með miklum látum. Svo kom könnun þar sem Davíð mældist ennþá vinsælasti stjórnmálamaður landsins. Þá kom forsíðan: “Davíð er ennþá kóngurinn”. Þeir nota bara hvert tækifæri til að hygla Sjálfstæðisflokknum. Nú er ég ekki að verja Fréttablaðið svo ekki koma með þau rök að Fréttablaðið sé jafn slæmt. Ég hef ýmislegt út á Fréttablaðið að setja en þessi grein fjallar ekki um það. DV á líka skilið að vera gagnrýnt harðlega. Ég ætla að segja því upp enda finnst mér þetta ömurlegt.