Útum allan heim er fólk efins þegar G. W. Bush talar um lýðræðið sem Bandaríkjamenn ætla að koma á í Írak eftir stríðið. Stríðið sem verður háð hvað sem nokkur maður segir eða gerir. Á leið sinni ætti Bush að taka meira mark á lýðræðinu annarsstaðar og jafnvel heimafyrir.

Þegar það lá fyrir að Tyrkir höfðu hafnað beiðni Bandríkjamanna um afnot af landi sínu þá varð eitt augljóst: Bush elskar lýðræði bara þegar það hefur engin áhrif á stríðs áform.

Kíkjum á grundvallarhugsjón lýðræðis. Það er lýðurinn sem ræður. Fólk veitir öðrum rétt til þess að fara með vald fyrir sig og þjóna hagsmunum fólksins.

Ef að þessi hugsjón er lýðræði er greinilegt að Bush líkar illa við raunverulega merkingu lýðræðis.

Bush hefur gert það að venju sinni að hæla þeim forsetum og forsætisráðherrum sem gera hluti þvert gegn vilja fólksins. Í Bretlandi er meira en helmingur fólksins gegn stríði. Og meira en milljón manns fóru á götur London og mótmæltu þann 15. Febrúar. 2 milljónir fóru á götur á Spáni og skoðanakannanir benda til þess að 75% eru gegn stríði á Spáni. En Bush hefur lofað Blair og Aznar í hástert þrátt fyrir að vera taka ákvarðanir þvert gegn vilja fólksins sem kusu þá.

Berlusconi er annað uppáhald BNA manna. Þar eru 80% gegn stríði og 15. feb voru stærstu mótmælin í heiminum í Róm. Lögreglan áætlar að milljón manns hafi verið á götunum en allir aðrir sem rætt hefur verið við m.a. dagblöð og sjónvarpsstöðvar segja að tvöfalt til þrefalt fleiri hafi verið.

Sennilega þó er forsætisráðherra Tyrklands Gul sá besti í lýðræði að mati Bush.

Ríkisstjórnin þar þurfti smá sannfæringarkraft (15 milljarðar dollara ) fyrir afnot af landi og flugvöllum. Vandamálið þar er bara að 94% Tyrkja eru andvígir stríði. Eftir mikið þref og loks samþykkis ráðherra þurfti samkvæmt stjórnarskrá Tyrkja að kjósa um það á þinginu. Með litlum mun var tillagan felld. En enn sem áður vonast BNA menn að þetta verði samþykkt fyrr en síðar.

Það varð reyndar smá klúður því rikisstjórn BNA bjóst við samþykki þingsins og gaf frá sér fréttatilkynningu og hrósaði hugrökkum Tyrkjum. En eins og kom á daginn voru Tyrkir ekki hliðhollir lýðræði Bush.

Eins og áður sagði vonast BNA menn að fá tillöguna samþykkta. En einn talsmaður ríkisstjórnar BNA sagði eftir farandi: “Við erum að reyna að ráða við unga stjórnmálamenn með litla reynslu sem ráða vart við ástandið í Tyrklandi.”

Reynsla í þessu tilviki þýðir það að fara gegn vilja fólkisins. En þar hafa einmitt stjórnendur í Bandaríkjunum mestu reynsluna.
——————–