BNA refsar Þýskalandi Tekið beint af mbl.is:

,,Breska dagblaðið The Observer greinir frá því í dag að Bandaríkjamenn ætli að refsa Þjóðverjum fyrir að hafa leitt baráttuna gegn stríði í Írak. Þeir hóta að draga til baka alla bandaríska hermenn, sem staðsettir eru í Þýskalandi og binda enda á hernaðarsamvinnu þjóðanna. Ef af þessu verður munu Þjóðverjar verða af milljörðum evra. Í dag eru 42 þúsund bandarískir hermenn í Þýskalandi, auk fjölda skriðdreka og flugvéla.
Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi þessi mál á fundi háttsettra manna í Pentagon í síðustu viku. Aðgerðirnar eru sagðar verða víti til varnar öðrum þjóðum sem reiði sig á viðskipti við Bandaríkin.

Rumsfeld vill að bandaíska herliðið verði flutt til nágrannlanda eins og Póllands og Tékklands eða annarra Evrópulanda sem hafa stutt stefnu Bandaríkjastjórnar í deilunni við Írak.“


Þegar ég las svipaða frétt á textavarpi RÚV í morgun hélt ég að ég myndi ganga af göflunum. Þar kom einnig fram að sömu aðilar höfðu stungið upp á því að hætta iðnaðarsambandi við þjóðverja, einnig í refsingarskyni fyrir að hafa ”svikið" Bandaríkin. Það myndi einnig kosta þjóðverja milljarða á milljarða ofan. Þið megið ekki halda að ég sé einhver kanahatari sem fussar og sveiar yfir öllu því sem BNA gerir og haldi því fram að allir Bandaríkjamenn séu fáfróðar fituhlussur sem ekki ættu að fá að tala. Ef þú lest það útúr þessari grein þá getur þú alveg sleppt því að nefna það. Þetta atriði fannst mér hinsvegar full gróft. Þótt að þetta sé ekki komið í gegn finnst mér það hrikalegt að í ríkistjórn máttugusta ríkis heims sé fólk sem lætur sér detta svona lagað í hug. Bandaríkjamenn gera sér fullkomlega grein fyrir áhrifum sínum á efnahag annara ríkja og ástandið er orðið slæmt þegar þeir fara að nota þessi áhrif sín til þess að kúga önnur ríki, að ég tali nú ekki um önnur stórveldi, til þess að beygja sig undir þeirra hugmyndir og áætlanir, sama af hvaða stærðargráðu þær eru. Ef bandaríkjamenn vilja vera boðberar frelsis og jafnréttis í heiminum (sem maður heyrir þá oft tala um) þá þýðir ekki að fara að refsa öðrum þjóðum fyrir að reyna að andmæla áformum þeirra sem skipta alla heimsbyggðina máli. Ég veit að BNA tekur þetta stríð við Írak alvarlega og telji að ekkert skipti meira máli í heiminum en að losna við Hussein en þetta er nú full langt gengið. Ég ætla nú bara rétt að vona að þetta fari nú ekki í gegn og að ríkistjórn Bandaríkjanna taki sig nú taki og hætti þessari vitleysu.

Hvað finnst fólki hérna annars um þetta, er þetta eitthvað sem við viljum sjá í framtíðinni?
——————————