Það er til stétt kennara sem mér hefur alltaf þótt mjög undarleg, og það eru vélritunarkennarar. Seinast þegar ég mældi hraða minn í þriggja mínútna vélritunarprófi á íslensku, náði ég 122 orðum á mínútu, villulaust. Ég veit ekki hversu mörg slög það eru, en mér skilst að menn margfaldi almennt orðin með 5 eða 6 til að komast að því, þó ég hafi reyndar álíka mikla trú á þeirri pælingu og vélritunarkennslu almennt.

Ég nefni þetta ekki til þess að monnta mig, heldur til þess að benda á að ég er maður sem ætti að vita eitthvað um málið. Síðan ég varð svona fljótur hefur mér reynst erfitt að finna menn sem eru jafn fljótir, og vélritunarkennarar eru langt frá því, enda kunna þeir almennt ekki að vélrita, andstætt því sem er gefið í skyn við vélritunarnemendur.

Reglan sem ég vil ræða, er “rétt fingrasetning”. Ein almesta hjátrú, heimska og óforsvaranlega vitleysa í sögu menntunar, þó af nógu sér þar að taka.

“Rétt fingrasetning” er dæmi um gjörsamlega blinda regludýrkun, þar sem nákvæmlega engin hugsun á sér stað til þess að komast að þeirri niðurstöðu, að það sé betra að nota rétta fingrasetningu heldur en “ranga”. Ég hef alltaf skrifað með “rangri” fngrasetningu, þ.e.a.s. puttarnir á hægri hönd eru meira á iði og uppteknir við kommustafi og þvíumlíkt, á meðan vinstri hendin spannar meira svæði og notar í rauninni oftar mismunandi putta.

Það er hinsvegar þrennt sem mælir á móti þessari gjörsamlega firrtu kenningu um rétta fingrasetningu, sem ég vil nefna.

Í fyrsta lagi notum við íslenskt stafasett og það er því ekki hægt að segja að vegna þess að maður sé fljótari að skrifa á ensku með réttri fingrasetningu, hljóti maður að vera það líka á allt öðruvísi máli, þar sem það eru ekki einu sinni sömu lyklar á lyklaborðinu, né eru þeir notaðir eins í öllum málum. Einstaka þjóðir hafa meira að segja gengið svo langt að skipta um takka, t.d. Þjóðverjar, sem hafa tekið ‘Z’ og skipt því við ‘Y’. Þið getið prófað það ef þið setjið á þýskt lyklaborð í tölvunum ykkar.

Í öðru lagi var Qwerty-lyklaborðið (sem er það sem er almennt notað) hannað fyrst og fremst með það í huga að hægja á mönnum! Þetta virðist kannski undarlegt, en það var hannað á tímum ritvéla, þar sem stjakarnir sem prentuðu stafina voru alltaf að flækjast í hvorum öðrum ef menn fóru of hratt. Heimurinn hefur síðan ekki haft það ofarlega á stefnuskrá að breyta lyklaborðinu eftir að tölvur og almennilegar ritvélar komu til sögunnar, þó að vísu séu nú til fleiri lyklasett, t.d. Dvorak, sem er einmitt hannað með nútímann í huga.

Í þriðja lagi er fólk almennt ekki jafnhent. Það er ástæða fyrir því að venjulegur maður getur ekki snúið gítar hvernig sem er og spilað jafn vel eða hratt. Það er jú vegna þess að flestir eru rétthentir, á meðan aðrir eru örvhentir, og hafa misjafna stjórn á mismunandi vöðvum beggja handa. Að halda því fram að maður eigi því að láta báðar hendur spanna jafn stóran hluta lyklaborðsins, er firra í sinni heimskulegustu mynd, eins og hver heilvita maður ætti að sjá eftir að hafa tekið sér tíma til að hugsa um málið áður en komist er að niðurstöðu.

Ég var sjálfur skikkaður til þess í grunnskóla til þess að nota rétta fingrasetningu, en ég sagði kennaranum að þegar hann næði mér í hraða með réttri fingrasetningu, þá skyldi ég gera það, því að ég hafði enga trú á þessari fáránlegu og gjörsamlega röklausu kenningu. Ég man ekkert hvort kennarinn samþykkti það eður ei, en ég skilaði mínum verkefnum og fékk undantekningalaust 10 á prófum svo að varla hefur hún látið þetta fara mikið í taugarnar á sér, enda ágæt kerling ef út í það er farið.

Önnur rök sem ég fékk í menntaskóla, eru rök sem oft eru notuð í umræðunni um þau sjálfsögðu mannréttindi að mega neyta t.d. kannabisefna ef manni andskotann dettur það í hug. Það eru rökin “reglur eru til þess að fara eftir þeim” og “reglur eru til að þjóna okkur”. Jájá, það er allt gott og blessað, en samkvæmt þessu mætti réttlæta nákvæmlega hvaða heimskulegu reglu sem er, t.d. til þess að skikka menn til þess að vélrita “rétt”, skikka þá til þess að éta/drekka/gera-sjálfum-sér ekki nákvæmlega það sem þeim andskotans sýnist, og að skikka menn til þess að hreyfa sig reglulega, með valdi ef til þess þarf. Með þessum rökum mætti réttlæta þjóðarmorð Gyðinga, bannið á bjórnum hérna í gamla daga og bann á útivist.

Ég segi NEI, við vélritunardjöfulinn. Ég geri þetta eins og mér sýnist, og ég vona að allir kennarar og nemendur sem lesa þetta taki þetta til íhugunar, vegna þess að svona firru og fávitaskap má finna á mun fleiri stöðum því miður, og því miður er mjög mikið af sambærilegum apagangi í skólakerfinu okkar.

Ég þakka lesturinn og bið þá sem ætla að gagnrýna tuðið í mér að hafa í huga, að enginn er að neyða ykkur til þess að lesa þetta.