Ég gegni núna því hlutverki að vera Íslendingur í útlandinu þar sem ég bý erlendis. Nánar tiltekið bý ég núna í Þýskalandi. Ég er mjög stolltur Íslendingur í hinu framandi landi og leiðist alls ekki að upplýsa hina fáfróða útlending um paradísar eyjuna sem liggur í norðuratlandshafinu og er kölluð Ísland. Staðurinn þar sem sól sest ekki á sumrin og nennir varla að kíkja á okkur á veturna. Þar sem kuldaboli stendur ekki undir nafni landsins. Fjölbreytt og sérstæð náttúra okkar er himnesk og helvísk, ójarðnesk og jarðnesk, óspillt og hrein (eða við teljum okkur allavega trú um að hún sé óspillt). Landið sem álfar, huldufólk, tröll, þursar, jötnar og geimverur líta á sem bústað sinn og ekki má gleyma þjóðinni sem byggir þetta land og hugvit og þokki skýn af. Ég er stolltur og sannur Íslendingur - eða það hélt ég lengi vel.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég bý erlendis. Fyrir rúmum fimm árum bjó ég í Vín í Austurríki. Áður en ég flutti þangað hafði umhuggjusöm kona látið mig fá bréf um svokallað menningarsjokk, fyrirbrygði sem að fólk sem er í framandi landi lendur stundum í. Í stuttu máli er menningarsjokki skipt í þrjú stig þar sem fyrsta er forvitni og almenn undrun yfir því sem maður er að kynnast, á öðru stigi líta hlutirnir alls ekki eins vel út og maður botnar ekki yfir höfuð á gjörðum fólks í landinu og á þriðja stigi er maður farinn að skilja og sættast við hlutina. Ég komst aldrei af fyrsta stigi þann stutt tíma sem ég bjó þarna. Hins vegar man ég eftir atviki þar sem ég sat með nokkrum stúlkum frá norðurlöndunum, Íslandi, Noregi og Finnlandi, og þær fóru allar að dásama matinn sem þær fengu í heimalandi sínu og hvað þær söknuðu hans mikið. Þetta er víst hluti af menningarsjokki eftir því sem mér skilst. Í mínum augum var maturinn hins vegar hinn forvitnilegasti. Ég átti í mesta basli með að læra og bera fram nöfnin á hinum ýmsu réttum og hann var vissulega öðruvísi en það sem ég átti að venjast á Íslandi, stundum smakkaðist hann betur og stundum verr.

Ég held að það sé hægt að segja að ég hafi orðið fyrir menningarsjokki hérna í Þýskalandi og það merkilega er að það voru ekki þjóðverjar sem ollu því heldur Íslendingar. Það voru frekar fáir Íslendingar sem að ég umgekkst í Austurríki en hérna umgengst ég talsvert fleiri, eitthvað um fimmtán. Þar sem ég er stúdent ákvað ég að ígrunda vel í hvað peningar mínir færu. Ég fann fína litla íbúð í hljóðlegu og fallegu hverfi með fína leigu. Ég ákvað að fá mér ekki símalínu og þar af leiðandi ekki internet tengingu þar sem að ég taldi peningum og tíma betur varið og af sömu ástæðu keypti ég ekki sjónvarp. Ég átti hins vegar farsíma og fékk mér frelsiskort í hann. Ég verð að viðurkenna að ég sá alls ekkert athugavert við þessa ákvörðun mína fyrr en hver Íslendingurinn á fætur öðrum fór að hneikslast á mér: Ertu ekki með net? Ekki með síma? Ekki með sjónvarp? Ertu heldur ekki með útvarp?Hvað gerir þú eiginlega? Ertu bara að læra öllum stundum? Hvað ætrlarðu að gera þegar heimurinn ferst? Hvað ef það kemur stríð? Svo það valdi ekki neinum misskilningi að þá kemst ég á internetið í skólanum eins og allir hinir Íslendingarnir sem eru í skólanum, svo jú ég er með net, bara ekki heima hjá mér. Þegar ég segi Íslendingunum að þegar ég hafi búið í Austurríki hafi farsímar ekki verið nærri því eins algengir og ég hafi búið á tímabili á stað þar sem ekki var hægt að láta tengja síma og pósturinn hafa bara komið einu sinni á viku, sem var alltaf tilhlökkunnar dagur, þá segja þeir ,,Þú ert líka skrítinn!'' Eftir allt þetta spurningar flóð og hneikslun í fólkinu leitar sú spurning á mig hvort við séum þjónar tækninnar eða tæknin þjónar okkar? Svo ég svari eitthvað af þessum spurningum í stuttu máli þá efast ég um að annað fólk standi eitthvað betur en ég ef heimurinn ferst eða stríð brýst út, það er jú til nokkuð sem heitir almennings viðvörunarkerfi sem er einmitt hannað fyrir slíka hluti. Hvað geri ég? Jú, ég læri en það vill svo til að ég á mér nokkur áhugamál sem ég hef unun að sinna og ég nýt þess að geta sinnt þeim án áreitist. Þar sem tónlist er mjög stór hluti af mínu lífi þá er ég með geislaspilara og hátalara en ég sé annars frekar litla þörf fyrir útvarp.

Annars það sem ég er að reyna að benda á er að er ég eitthvað minni Íslendingur þar sem að ég er ekki búinn að rjúka til og fá mér alla þessa hluti. Er algjört skilyrði fyrir því að vera maður með mönnum eða Íslendingur með Íslendingum að maður sé a.m.k. með sjónvarp? Og gleymum ekki hlutum eins og internetinu, nýjasta farsímann og nýjustu tölvuna? Er ég eitthvað minni maður eða eiginlega frekar minni Íslendingur, því útlendingarnir hneikslast ekki á mér? Hvað er það í Íslendingnum sem gerir það að verkum að hann þarf að eiga allt, hafa allt og það þarf allt að vera það nýjasta af nálinni? (Spyr sá er veit).

++ sljó