Um áramótin tóku gildi ný lög um útlendinga á Íslandi (2002 nr. 96 15. maí)og hefur Dómsmálaráðuneytið nú gefið frá sér lokadrög að reglugerð um útlendinga sem er byggð á hinum nýju lögum. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar og hægt að finna mörg áhugaverð atriði og hér á eftir er stuttur listi:

*Tvenns konar dvalarleyfi verða nú í gildi: dvalarleyfi (yfirleitt tímabundið, háð takmörkunum) og búsetuleyfi (ótímabundið, virðist vera skref í áttina að “Græna kortinu” í Bandaríkjunum). Nokkrar mismunandi gerðir dvalarleyfis eru til og ekki geta allar leitt til búsetuleyfis.

*Almennt skal útlendingur hafa dvalarleyfi áður en komið er til landsins. Undantekningar eru þó t..d. fyrir maka eða barn Íslendings eða útlendings með dvalar eða búsetuleyfi.

*Til að fá búsetuleyfi þarf útlendingur að hafa dvalið á Íslandi í 3 ár og sýna fram á íslenskukunnáttu. Farið er fram á 150 stunda námskeið með 85% mætingu. Einnig virðist vera hægt að sýna fram á jafngildandi kunnáttu t.d. með því að taka sérstakt próf.

*Bússetuleyfi fellur niður ef útlendingur dvelur erlendes samfellt 18 mánuði eða lengur og nær skilgreiningin á þessu t.d. yfir ef útlendingur hefur samtals verið 18 mánuði erlendis á 4 ára tímabili. Undantekningar þó t.d. vegna náms og vinnu (útlendingsins eða maka) ef ljóst er að ætlunin sé að koma aftur til Íslands að því loknu.

*Útlendingi er hægt að vísa úr landi ef hann hefur brotið alvarlega af sér eða ítrekað brotið af sér. Erfiðara er að vísa úr landi þeim sem hefur fengið búsetuleyfi en það má þó t.d. ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins. Þeim sem fæddur er á Íslandi og hefur átt fast heimili þar síðan þá er ekki hægt að vísa úr landi.

*Hægt er að neita útlendingi um landgöngu eða synja um útgáfu dvalarleyfis og búsetuleyfis eða setja takmarkanir eða skilyrði ef það er talið nauðsynlegt vegna mikilvægra þjóðarhagsmuna, öryggis eða utanríkisstefnu ríkisins.

*Útlendingur sem á íslenskan maka og hefur búið með honum í samfellt 3 ár eftir hjónaband (eða staðfesta samvist) þarf ekki sérstakt dvalarleyfi.

*Gististaðir þurfa að halda skrá yfir alla útlendinga sem koma þangað og getur lögreglan beðið um aðgang að þeim skrám hvenær sem er.

*Atvinnumiðlanir/ráðningaskrifstofur þurfa að tilkynna Útlendingastofnun um hvern þann útlending sem leitar til þeirra eða er miðlað í starf á þeirra vegum.

Lokadrög að reglugerð um útlendinga má finna hér:

http://domsmalaraduneyti.is/interpro/dkm/dkm.ns f/Files/Reglug_um_utl_lokadrog/$file/Reglugerd_um_utlen dinga_lokadrog.pdf