Breyta þarf launakerfi kennara


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði á borgarafundi sem Framsóknarflokkurinn í Reykjavík stóð fyrir í gær, að rök hnigju að því að breyta launakerfi kennara, og ljóst væri að hækka þyrfti byrjunarlaun þeirra. Hann kvaðst vonast til þess að verkfall framhaldsskólakennara leysist fyrir jól en margt þyrfti að koma til ætti það að takast, ekki einungis af hálfu ríkisvaldsins heldur einnig þeirra sem eru í forsvari fyrir framhaldsskólakennara.
“Ég held að allir viðurkenni það að það þurfi að bæta kjör framhaldsskólakennara. Þeir hafa dregist aftur úr að sumu leyti en launakerfi þeirra er nokkuð sérstakt. Þeir fá sérstaka hækkun eftir tíu ára starf og nýja hækkun eftir 15 ára starf. Þeir fá sérstaka hækkun við 55 ára aldur og aðra við 60 ára aldur. Þetta er ekki eins og gengur og gerist í nútímasamfélagi. Byrjunarlaun þeirra eru lág og ég held að það þurfi að hækka þau. En vera má að einnig þurfi að jafna laununum meira yfir ævina. Ég held að það sé ekki í takt við nútímann að launin hækki eftir því sem menn eldast. Þegar menn eru farnir að nálgast sextugsaldurinn þola þeir almennt frekar lægri laun en þeir þurftu þegar þeir voru að koma undir sig fótunum. Einnig hefur verið byggt upp allt annað eftirlauna- og lífeyriskerfi en þekktist áður fyrr. Mér sýnist því að öll rök hnígi að því að breyta í einhverju launakerfi kennara,” sagði Halldór.