Nú er maður nýstaðinn upp frá fréttum, og ég var bara að velta fyrir mér: Hvað finnst ykkur um þessa málsókn aðstandenda fólksins sem fórst í 9/11 á hendur kóngafólksins í Sádi Arabíu?

Málsóknin er á þeim forsendum að Sádi Arabía hafi borgað Al-Qaeda fyrir að fremja ekki hryðjuverki á Sádi Arabískri grund, og þannig fjármagnað að hluta til hryðjuverkin í New York.

Við fyrstu sýn virðist þetta kannski ekki svo fráleit hugmynd en ef maður hugsar aðeins út í þetta þá… Hvað gæti mögulega verið ólöglegt við þetta? Jafnvel þó að kóngafólkið HAFI mútað Bin Laden með þessum hætti (sem er ekki sannað) sé ég frekar lítið athugavert við þetta. Það er kannski afar óæskilegt að borga lausnargjöld, en ég veit ekki til þess að það sé ólöglegt.

Þetta er í raun ekkert öðruvísi en fólkið, þ.m.t. bandaríkjamennirnir, sem borga hryðjuverkahópum í Suður-Ameríku og víðar háar fjárhæðir fyrir að sleppa ættingjum og ástvinum lausum. Á að lögsækja það fólk fyrir stuðning við hryðjuverkahópa?
Ég held það varla.

Það þýðir lítið að reyna að segja mér að Sádi Arabía hefði getað upprætt Al-Qaeda af sjálfsdáðum, og ennþá minna að segja mér að Bandaríkin hefðu veitt þeim einhverja hjálp af viti, þó Sádar hefðu beðið um það. Bandaríkjastjórn var einfaldlega nokkuð sama um hryðjuverk einhversstaðar í austurlöndum áður en september ellefti dundi yfir.

Ég a.m.k. sé ekki illskuna í þessum “mútum” Sádi Araba.