Party Zone og Þruman harma fjarveru Sasha á annars frábæru kvöldi á Nasa.

Kæru gestir á Party Zone kvöldi miðvikudaginn 19. maí s.l.

Það voru okkur gríðarleg vonbrigði þegar okkur var tjáð af framkvæmdarstjóra Sasha að Sasha hefði ekki komist uppí flugvél IcelandAir sem átti að lenda í Keflavík seint um kvöldið sem hann átti að koma fram á dansleik á okkar vegum á NASA. Viljum við biðja alla sem komu innlega afsökunnar á því sem gerðist. Atvik sem þessi, þ.e. að plötusnúður skili sér ekki til landsins, eru gríðarlega erfið viðureignar þar sem okkur er ekki gefið neitt ráðrúm til að bregðast við. Það eina sem hægt var í stöðunni var að halda áfram með dansleikinn og tókst þeim Grétari og Frímanni, sem hljóp í skarðið fyrir Sasha, frábærlega upp. Viljum við þakka þeim og gestum staðarins sem reyndu þó að gera gott úr kvöldinu. Er óhætt að segja að það hafi tekist, enda smekkfullur staðurinn langt fram á nótt og flestir virtust skemmta sér vel.

Atvik sem þetta hefur ekki gerst áður í 10 ára sögu PZ kvöldanna og agalegt að það þyrfti einmitt að gerast á einu stærsta kvöldi sem við höfum haldið. Enn og aftur hörmum við þetta af öllu hjarta. Allt frá því að við fréttum þetta höfum við unnið baki brotnu við að tryggja að þetta leiðinlega mál fái farsælan endi.

Staðan er sú að við erum í stöðugu sambandi við fólk frá Excession, umboðsskrifstofu Sasha, varðandi fullnægjandi lausn. Það sem hægt er að segja fólki á þessari stundu er að verið er að vinna í því að Sasha fái sig lausan og komi hingað seinna í sumar. Þá yrði hægt að bæta ykkur þetta upp með veglegu partý-i. Sasha og starfsfólk umboðsskrifstofunnar harma þetta mjög og eru öll af vilja gerð í að leysa þetta mál.

Vinsamlegast gefið okkur tíma til að leysa þetta mál farsællega. Með von um skilning á okkar stöðu í þessu máli,


Virðingarfyllst,

Party Zone og Þruman.