Breakbeat.is kvöldin, langlífustu klúbbakvöld Reykjavíkurborgar, hafa komið sterk inn á næturklúbbnum Jacobsen undanfarið og halda sem fyrr áfram að rúlla með flottustu drum & bass, jungle og dubstep tónana fyrsta fimmtudag hvers mánaðar. Nú á fimmtudaginn verður boðið upp á spennandi gestasnúða þegar breski plötusnúðurinn Skipple og austfirska undrabarnið Muted stíga á stokk á Jacobsen en þeim til trausts og halds verður Breakbeat.is fastasnúðurinn Ewok. Fjörið hefst klukkan níu og stendur til eitt eftir miðnætti og það er frítt inn.

Skipple, sem heitir réttu nafni Hugh Counsell, er fæddur í Ástralíu en hefur frá unga aldri alið manninn í Lundúnaborg. Danstónlistarbakterían greip Skipple á táningsárunum og hefur hann um árabil reynt fyrir sér sem plötusnúður í jungle, garage og dubstep tónlistarstefnunum. Í skífuþeytingum sínum blandar Skipple saman ýmsum stefnum og straumum, nýjustu og ferskustu dubstep tónarnir heyrast í bland við garage og house klassíkera. Hefur hann leikið listir sínar um víðan völl og er meðal annars með þátt á hinu virta Sub.fm netútvarpi auk þess sem hann vinnur fyrir dubstep útgáfuna Hotflush.

Egilstaðarpeyjinn Bjarni Rafn Kjartansson semur drum & bass og aðra raftónlist undir nafninu Muted. Melódískar og djúpar tónsmíðar hans hafa getið honum gott orð og hefur frægðarstjarna hans í drum & bass heiminum farið hratt rísandi. Belgíska útgáfan Influenza Media gaf um dagin út frumraun Bjarna, lagið “The Beach” en fleiri lög eru væntanleg frá kappanum á útgáfum eins og Cylon og Modern Urban Jazz á næstunni. Þetta er í fyrsta sinn sem Muted spilar á Breakbeat.is kvöldi en búast má við heljarinnar drum & bass bræðingi frá þessum hæfileikaríka pilti.

Ewok ætti ekki að þurfa að kynna fyrir íslenskum danstónlistaraðdáendum en hann hefur í hartnær áratug staðið vaktina bakvið spilarana og leikið fyrir dansi á flestum skemmtistöðum Reykjavíkur.

Sem áður segir fara herlegheitin fram á Jacobsen, Austurstræti næstkomandi fimmtudag, 2. júlí. Það er frítt inn en fyrstu gestir kvöldsins fá óvæntan glaðning! Upphitun fyrir kvöldið fer fram í útvarpsþættinum Breakbeat.is á Xinu 97.7 miðvikudagskvöldið 1. júlí 23-01.


Breakbeat.is @ Jacobsen 02.07.09

Skipple (UK)
Ewok (Breakbeat.is | IS)
Muted (Mjazz | Influenza Media | IS)

21-01 | Frítt inn
www.breakbeat.is

Hlekkir:
Muted á Myspace: http://www.myspace.com/muteddnb
Skipple á Myspace: http://www.myspace.com/skippledub

Þá er nánari upplýsingar að finna á glænýrri vefsíðu Breakbeat.is