Gömlu Dansarnir - 80s house, techno og electro á 22 laugardaginn 26. júlí Laugardaginn 26. júlí verða dansaðir Gamlir Dansar á skemmtistaðnum 22. Það eru þó ekki ræll, polki og harmónikutónlist sem verða þar í aðalhlutverki heldur rafræn danstónlist frá 9. áratuginum, fæðingarárum house, techno og electro tónlistarinnar. Plötusnúðarnir Kalli og Ewok hafa dustað rykið af gömlum skífum, týnt saman gamla smelli og efla nú til þessa dansiballs undir yfirskriftinni “Gömlu Dansarnir”

Á 9. áratugnum var mikil gróska í raftónlist m.a. vegna þess að tæki og tól til slíkra tónsmíða fóru loks að fást á viðráðanlegu verði. Um víða veröld spruttu upp nýjar og spennandi tónlistarstefnur og senur sem urðu síðar meir að alþjóðlegum fyrirbærum. Má þar nefna house sem varð til í Chicago borg og tekur nafn sitt frá hinum sögufræga klúbb Warehouse, techno tónlistina sem á rætur sínar að rekja til Detroit borgar og electroið sem hægt væri að bendla við New York borg. Allar þessar stefnur eiga svo uppruna sinn í disco tónlistinni, funki, italodiscoi, syntha-poppi og raftónlist fyrri ára.

Plötusnúðar kvöldsins voru sennilega uppteknari af leikskólalögunum en raftónlist á þeim árum sem þessi tónlist kom upphaflega út en hafa þó í seinni tíð lagt vinnu, metnað og eldmóð í að kynna sér tónlistina, sögu hennar og að grafa upp tólf tommu vínyl plötur um víða veröld. Þótt þeirra bíði verðugt verkefni eru þeir fullvissir um að velja rétt, koma fólki í gírinn og sýna þeim hvernig þetta var gert í den. Sýna þeim hvernig fólk dansaði Gömlu Dansana.


Af listamönnum sem eiga sess í plötukassanum má nefna:
Kraftwerk, New Order, Phuture, Mr. Fingers, Yazoo, Art of Noise, Afrika Bambaata, Marshall Jeffersson, Cybotron, LFO, Inner City, Adamski, Grand Master Flash, Liquid Liquid, Frankie Knuckles, Juan Atkins og fleiri og fleiri.