Burial tæklar DJ-Kicks Í vikunni tilkynnti þýska plötuútgáfan !K7 að huldumaðurinn dularfulli Burial, einn af uppáhalds tónlistarmönnum Breakbeat.is undanfarin ár, myndi sjá um næsta hluta DJ-Kicks seríunnar vinsælu. Suður-Lundúnarbúinn Burial hefur verið þekktur fyrir að halda sig utan sviðsljóssins, en breiðskífur hans “Burial” (2006) og “Untrue” (2007) á Hyperdub, útgáfufyrirtæki Kode9, hafa hlotið gríðarlegt lof og góðar viðtökur um tónlistarheiminn þveran og endilangan.

Síðustu DJ-Kicks plötur frá Four Tet, Henrik Schwarz, Booka Shade og Hot Chip hafa farið með seríuna á enn fjölbreyttari slóðir en áður, og það verður spennandi að sjá hvað Burial mun gera. Heyrst hefur að hann muni setja sín uppáhölds dubstep, techno og jafnvel r&b lög í sinn einstaka búning, í bland við nýtt efni frá honum sjálfum.

Burial mun því miður ekki fylgja plötunni eftir með því að koma fram og spila, en það er hlutur sem hann hefur aldrei gert og við erum flest búin að sætta okkur við. Við getum hinsvegar hlakkað til plötunnar sem er væntanleg í búðir bæði á geisladisk og tvöföldum vínyl þann 23. júní næstkomandi.

www.dj-kicks.com

Tekið af Breakbeat.is