3 ára afmæli Techno.is - Ókeypis aðgangur - Allir velkommnir!



Laugardagskvöldið 5. apríl mun Techno.is halda upp á 3ja ára afmæli sitt á Nasa við Austurvöll og í tilefni dagsins er aðgangur ókeypis. Húsið opnar klukkan 23.00 og stendur dansveislan til 05:30. Fyrstu gestirnir fá drykki á meðan birgðir endast ásamt óvæntum glaðningum frá Techno.is.



Þetta kvöld koma fram fimm plötusnúðar:

Dj Eyvi
Hefur komið fram á fjölmörgum atburðum Techno.is og verið einn af lykilmönnum kvöldanna en hann hefur spilað með nöfnum eins og Moniku Kruse, Sander Kleinenberg og Dj Tiesto.

Dj Arnar
Arnar var annar hluti tvíeykisins Hugarástand ásamt DJ Frímanni en saman tröllriðu þeir senunni 1999-2001 og gerðu Club Thomsen að goðsögn.

Dj Frímann
Hefur dregið sig í hlé frá spilamennskunni og ekki komið fram á Nasa í eitt og hálft ár. Hann var lengi vel áhrifamesti Technoplötusnúður Íslandssögunnar og er þvi sérstakur heiðursgestur kvöldins.

Plugg'd
Mæta sterkir til leiks og koma fram “Live” en þeir hafa verið að gera allt vitlaust undanfarið með lögum eins og “Inforce” og “Breath” og eru án efa titlaðir sem heitustu plötusnúðar landsins.

Exos
Endar kvöldið með danstónlist í harðari kanntinum eins og honum einum er lagið. Exos hefur komið fram á öllum Techno.is kvöldunum til þessa og hefur verið duglegur að kynna Techno fyrir landanum síðastliðin ár.

Dj Thor
Thorhallur Skúlason hefur verið einn helsti brautryðjandinn í íslensku danstónlistarlífi. Má meðal annars nefna að hann hefur spilað út um allan heim og var einn forsprökkum Reif bylgjunnar á Íslandi árið ‘90 til ’92.


Ágrip af sögu Techno.is:

Techno.is varð til í febrúar 2005 og var tilgangur Techno.is frá upphafi að efla og stækka danstónlistarsenuna á Íslandi.

Opnunarkvöld Techno.is var á Grand Rokk þar sem að fjöldinn allur af innlendum plötusnúðum spiluðu, þegar líða tók á sumarið, nánar tiltekið í maí mánuði var Thomas P Heckman fenginn til að spila á Gauki á stöng. Tveimur mánuðum seinna stóð Techno.is fyrir komu Surgeon til landsins sem einnig spilaði á Gauknum. Fljótlega upp úr því varð ljóst að mikil vakning var að eiga sér stað á senunni og þörfin fyrir stærri stað til að hýsa atburðina varð augljós.

3. nóvember 2005 flutti Techno.is inn technodrottninguna Mistress Barbara og var NASA við Austurvöll valinn til að hýsa þann atburð. Fullt hús var á NASA þetta kvöld og greinilegt að áhugi Íslendinga á danstónlist hafði sjaldan eða aldrei verið meiri. Á sama tíma hóf útvarpsþátturinn Techno.is göngu sína á Flass 104,5 og hefur þátturinn verið mjög mikilvægur hlekkur í starfi Techno.is síðan. Í kjölfarið stóð Techno.is fyrir mörgum eftirminnilegum klúbbakvöldum, og nefna má nöfn eins og Marco Bailey, Roni Size, Monika Kruse, Anthony Pappa og Dj Lucca.

Þann 9.febrúar 2007 urðu svo straumhvörf á senunni þegar Techno.is hélt fjölmennasta klúbbakvöld sem haldið hafði verið á Íslandi þegar Sander Kleinenberg troðfyllti Broadway og komu yfir 2.000 manns til að berja kappann augum. Eftir þetta kvöld varð ekki aftur snúið og upp úr því stóðu aðstandendur Techno.is fyrir komu tónlistarmanna eins og Fedde Le Grand, Pendulum, Dirty South, Timo Maas, Tiesto, Benny Benassi og Sander Van Doorn. Techno.is mun halda áfram að starfa af jafn miklum metnaði og áður og halda áfram að flytja inn danstónlist á heimsmælikvarða um ókomna framtíð.

Techno.is þakkar öllum þeim sem hafa stutt við bakið á okkur í gegnum árin, bæði kostunaraðilum og að sjálfsögðu þeim fjölmörgu sem mætt hafa á kvöldin og hjálpað okkur að gera þau eins eftirminnileg og raun ber vitni.