Breakbeat.is kynnir: NOISIA á Organ 16. nóvember 2007 Föstudaginn 16. nóvember næstkomandi stendur Breakbeat.is fyrir svakalegu dansiballi á skemmtistaðnum Organ í Hafnarstræti 1-3, 101 Reykjavík. Þar mun stíga á stokk plötusnúðurinn og tónlistarmaðurinn Thijs de Vlieger, en hann er þriðjungur hollensku ofurgrúppunnar Noisia. Nafnið ætti að vera farið að hljóma kunnuglega, enda á tríóið miklum vinsældum að fagna hér á landi Til að mynda áttu Noisia drengirnir heil þrjú lög árslista Breakbeat.is fyrir árið 2006, fleiri en nokkur annar.

Noisia koma frá borginni Groningen í Hollandi og eru án nokkurs vafa heitasta nafnið í drum & bass heiminum í dag, og þótt víðar væri leitað. Þeir hafa verið að gefa út tónlist síðan árið 2003 en slógu fyrst almennilega í gegn árið 2005. Þá gáfu þeir út tvær þröngskífur (EP) með stuttu millibili sem gerðu allt gjörsamlega vitlaust í senunni; Block Control hjá Moving Shadow útgáfunni og Monster hjá Subtitles. Þar stimpluðu þeir sig rækilega á kortið og í kjölfarið hafa þeir gefið út hjá öllum þeim stærstu í bransanum, t.d. Renegade Hardware, Ram Records, Metalheadz og á útgáfunni Vision, sem að þeir eiga sjálfir og reka.

Undanfarið hafa þeir einnig fiktað við aðrar tónlistarstefnur, til dæmis breakz og electro house. Lagið “Yellow Brick” hefur valdið miklum usla um allan heim. Lagið er í mikilli spilun á X-inu 97.7 um þessar mundir og einnig hafa allir helstu 4x4 boltarnir hérlendis spilað lagið í hengla á dansgólfum Reykjavíkur og víðar.

Noisia hafa unnið með stórum nöfnum í tónlistarheiminum, til að mynda bandarísku hiphop goðsögninni KRS-One, Bad Company, TeeBee og fleirum. Þeir hafa einnig remixað kappa á borð við Pendulum & Freestylers, Íslands(ó)vininn Robbie Williams og hipster-grúppuna Hadouken!

Upphitunin þann 16. nóvember verður í höndum fastasnúða Breakbeat.is, þeirra Kalla og Gunna Ewok. Engin forsala verður á þetta kvöld, en miðaverð við hurð verður einungis 1000 krónur til klukkan 1, en 1500 krónur eftir það. Það er því rétt að mæta snemma til að missa örugglega ekki af einu af rosalegri tjúttum síðari ára.

Breakbeat.is
Noisia á MySpace