Techno.is kynnir Dirty South á Broadway föstudaginn 12. október. Ásamt Dirty South koma framm Exos, Dj Eyvi og Plugg'd en þeir verða síðastir á svið á undan Dirty South sjálfum. Forsalan er í fullum gangi í nýrri og breyttri AllSaints Kringlunni og kostar miðinn 1800 kr.
Mikill hiti er fyrir komu Dirty South til landsins en kappinn hefur verið í stanslausri spilun á íslenskum klúbbum og skemmtistöðum síðastliðið ár. Þá hefur Dirty South fengið mikla útvarpsspilun þar sem tónlist eftir hann hefur ómað á FM 957, Flass 104,5 og Voice á Akureyri.
Dirty South hefur einnig verið mikið spilaður í vinsælustu dansþáttum þjóðarinnar eins og Party Zone, klúbbaþættinum Flex og Techno.is.

Dirty South skaust hratt upp stjörnuhimininn í danstónlistinni á síðustu tveimur árum og telst vera einn færasti og eftirsóttasti endurhljóðblandari dansgeirans í dag. Hæfileikar hans til að skarta dansvænum blæ á nánast hvaða tónlist sem er hefur fengið gríðarlega athyggli og veitt Dirty South mikla viðurkenningu í dansheiminum á skömmum tíma. Sem dæmi um það er endurgerð kappans á rokklögunum “The things you say” með Cicada sem sat á árslista Party Zone fyrir árið 2006 og “Its to late” með Evermore sem varð eitt vinsælasta lag Flass 104,5 svo mánuðum skipti á þessu ári.

En vinsældir Dirty South hafa einnig verið gríðarlegar erlendis. Hafa stórnöfn eins og Dj Tiesto, David Guetta, Depeche Mode, New Order, Murk og Josh Wink slegist um að fá “remix” eftir meistarann Dirty South fyrir útgáfurnar sínar.

Árið 2005 kom “The Annual 2006” á Minestry of Sound sem innihélt tvö mix eftir Dirty South og sama ár kom út remixið hans af Spektrum “Kinda New” sem var ein söluhæsta EP plata ársins. Árið 2006 var stórt stökk upp á við fyrir Dirty South, Global Gathering gaf út safndisk sem innihélt það besta og ferskasta á árinu með nöfnum á borð við Daft Punk, FatBoySlim og Hot Chip. Dirty South átti að sjálfsögðu lag á disknum en það var endurhljóðblöndun hans af laginu “Watch out” með Ferry Costen. Þá fékk hin framsækna Apollo útgáfa, Dirty South til að remixa Changes með Chris Lake en það seldist í gríðarlegu upplagi út um allan heim og náði mikilli spilun á nær öllum popptengdum útvarpsstöðum heimsins, meðal annars FM 957 og Flass 104,5. Plötusnúðar eins og Sasha, Sander Kleinenberg og Pete Tong tóku lagið í ástfóstur og kynntu lagið sem einn heitasta smell ársins 2006.

Dirty South hélt áfram að gera það gott fyrir stærstu mixdiskaseríur sumarsins 2006 eins og Cream summer, Ibiza Annual 2006 (Minestry of Sound), F*** Me I'm Famous! (David Guetta) og The Mix Summer 2006 (HeadKandy) svo eitthvað sé nefnt. Dirty South remixið af Put your hands up for Detroit með Fedde Le Grand kom út um haustið og Dirty South varð uppbókaður út um allan heim á heitustu næturklúbbum heimsins.

Árið 2007 hélt Dirty South áfram að þeyta skífum og remixa heitustu lög dansiðnaðarins. “Feels like home” með Meck (Dirty South remix) gerði allt vitlaust á vinsældarlistum út um allan heim og Roger Sanchez, einn virtasti house frömuður Bandaríkjanna fékk Dirty South til að gera remix af laginu Not Enough. Lagið er nú í dagspilun á útvarpsstöðinni Flass 104,5 og er mjög vinsælt. Dirty South ásamt Tv Rock fengu það skemmtilega verkefni að endurvekja lagið “Higher State Of Consciousness” með Josh Wink. Lagið varð strax þvílíkur hittari og gaf upprunalegu útgáfunni ekkert eftir.

Það var þá frægasti plötusnúður heimsins í dag sem bað Dirty South um að gera fyrir sig remix af laginu “In the dark”, en það var Dj Tiesto. Lagið varð mjög vinsælt og féll vel í kramið hjá Dj Tiesto sem var óhræddur að spila það jafnvel þótt það félli ekki beint í hans farveg sem er frekar ólíkur Electrohousestílnum sem Dirty South er þekktur fyrir.

Dirty South hefur ferðast um allan heiminn sem plötusnúður og spilað með mörgum af þeim allra stærstu nöfnum danstónlistarinnar á þessum stutta tíma sem hann hefur verið viðriðinn í senunni. Hann hefur fengið frábærar viðtökur í fjölmiðlum sem tónlistarmaður og plötusnúður og spilað á mörgum af frægustu klúbbum og tónlistarfestivölum heimsins. Þá hefur hinn virti útvarpsmaður Breta, Pete Tong, oftar en einu sinni kynnt lög eftir Dirty South sem “essential new tune” í einum virtasta dansþætti heimsins, The Essential Mix á BBC Radio 1.

Það er þá eins og áður sagði mikil eftirvænting hjá Techno.is að taka á móti Dirty South föstudaginn 12. október á stærsta skemmtistað landsins á Broadway og hlýða á þennan frábæra plötusnúð. Dj Eyvi byrjar kvöldið stundvíslega kl. 23.00 og tekur Exos við um miðnætti. Það verður þá hlutverk þeirra Plugg'd bræðra að sjá um aðalupphitum kvöldsins fyrir Dirty South en Plugg'd eru án efa heitustu plötusnúðar Íslands í dag. Ekki missa af Dirty South 12. október í boði Techno.is. Þeir sem kaupa miða á Dirty South í forsölu og halda afrifunni fá sérstakan forgang í forsölu á Dj Tiesto daganna 13. október til 17. október. Eftir þann tíma fellur forgangurinn niður og miðasala á Dj Tíestó byrjar stundvíslega kl: 10.00 þann 18. október.