Arno Kammermeier og Walter Merzinger mynda Booka Shade dúóið.


Þeir voru virkir í danstónlist á tíunda áratugnum en fengu leið á þýsku trance-techno senunni sem þá var í gangi. Þeir færðu sig bak við tjöldin og unnu sem upptökustjórar og lagahöfundar fyrir poppsveitir eins og Culture Beat og No Angels. “Við fengum vel borgað, en enga útrás fyrir sköpunargleðina”, segja þeir félagar.


Kvöld eitt fengu þeir heimsókn frá vinum sínum “… einhverntíma komu Philip og Patrik úr M.A.N.D.Y. í heimsókn og spiluðu fyrir okkur akkúrat réttu plöturnar aftur”. Eftir það var ekki aftur snúið og Get Physical Records útgáfufyrirtækið var stofnað af Booka Shade, M.A.N.D.Y. og Thomas Koch (DJ T.).


Í byrjun gáfu þeir út dót eftir M.A.N.D.Y., DJ. T, Chelonis R. Jones og fleiri, en komu síðan sjálfir aftur í sviðsljósið árið 2004 með plötunni ‘Memento’. Ég man ég fann þessa breiðskífu á tvöfaldri 12“ í Þrumunni sálugu og heyrði að þarna var eitthvað sérstakt á ferðinni.


Árið 2005 var þeirra. Lögin ‘Mandarine Girl’ og ‘Body Language’ seldust saman í yfir 30.000 eintökum. Í danssenunni myndi það sennilega flokkast sem margföld platína. Lögin urðu ‘anthems’ hvar sem var, á þýskum neðanjarðarklúbbum, Ibiza og Kaffibarnum - allstaðar. Í lok 2005 var Get Physical útgáfufyrirtæki þeirra Booka Shade manna svo valið útgáfufyrirtæki ársins af DJ Mag. Ekki auðsóttur titill á svo frábæru tónlistarári.


Þeir voru ekki hættir. Í vor fóru að heyrast í settum vel flestra plötusnúða ný lög frá Booka Shade. Lög af nýjustu plötu þeirra, ‘Movements’. Arno og Walter segja nýju plötuna undir miklum áhrifum frá tónleikahaldi sínu. Þeim hafi gefist tækifæri til að prófa lögin á dansgólfi og sjá hvernig þau virki.


Um tónleika sína segja Booka: ”… það sem við fílum er að halda hálfgerða rafræna rokktónleika - við spilum lögin okkar. Við útbúum kannski sérstakar útgáfur af lögunum fyrir tónleika, en fólk ætti samt sem áður að geta þekkt lögin okkar, og við erum mjög stoltir af þeim."


Skiljanlega eru þeir stoltir - enda rokseljast þau, eru á topplistum plötusnúða um allan heim og trylla dansgólfin!


Gaukurinn hefur líklega aldrei hýst jafn þétt tónleikaband …


Sjáumst þar!




Heimildir:

http://www.xlr8r.com/content.php?uid=FA21DEDE2391326A065B41D12EF73FD4

http://www.djmag.com/newsfeat321.php

http://physical-music.com/artists/booka_shade/booka_shade_bio.php