Grein: John B Hárprúði Englendingurinn frá Maidenhead, John B. Williams, betur þekktur sem John B, kemur til Íslands þann 29. september næstkomandi og leikur fyrir dansi á skemmtistaðnum NASA á vegum Breakbeat.is. John B á að baki glæstan feril innan drum & bass senunar, heilar sex breiðskífur og fjölmargar smáskífur hjá sumum af virtustu útgáfum bransans auk þess að hafa farið um víða veröld sem plötusnúður (þar af tvisvar sinnum áður til Íslands). Það er ekki úr vegi að líta yfir feril John B og rifja upp nokkur af afrekum hans.

Nafn John B hefur ávallt verið tengt frumleika. Í lögum hans í gegnum tíðina má heyra áhrif frá hinum ýmsu stöðum og er þau afleiðing tregðu hans til þess að festa sig í einni stefnu. Má í raun segja að gæðastimpill sé það eina sem hefur fylgt lögum hans í gegnum árin þar sem hann hefur að öðru leyti tekið hverja u-beygjuna á fætur annarri í tónlist sinni.

John B kynntist drum & bass í gegnum útvarpsþátt Fabio & Grooverider á útvarpstöðinni Kiss Fm. Minna en ári eftir að hafa heillast af tónlistinni var John B farinn að vinna í eigin lögum og reyna að koma þeim út. Demoupptökur hans náðu athygli DJ SS, sem gaf út fyrstu skífu hans á útgáfufyrirtæki sínu New Identity. Það var John B mikil hvatning og með lögum eins og “Sight Beyond” og “Fermats Theorem”' náði hann athygli margra innan drum & bass senunar. Á meðal þeirra sem hrifust af tónum þessa unga manns var Grooverider sem árið 1997 gaf út lagið “Secrets” á safnskífunni stórkostlegu “The Prototype Years”. Skífan er talin til tímamótaverka í drum & bass tónlistarheiminum og skipaði John B sér þar á sess með mönnum eins og Optical, Ed Rush, Dillinja, Matrix auk Grooverider sjálfs.

Eftir það varð ekki aftur snúið og árið 1998 gaf John B út fyrstu breiðskífu sína sem hlaut nafnið “Visions” og kom út á New Identity. Breiðskífan hlaut góða dóma gagnrýnenda og seldist vel bæði meðal drum & bass aðdáenda sem og annarra utan senunnar. Skífan innihélt stóra smelli af ýmsu tagi sem gerðu það gott á dansgólfum út um allan heim, svo sem “Starburst 1.1”, “Jazz Session II”, “Travelogue” og fleiri.

John B hélt áfram að semja tónlist með opnu hugarfari og næsti slagari hans var lagið “Salsa” sem náði m.a.s. svo langt að komast í almenna útvarsspilun hér á Íslandi. Lagið var í sterkri andstæðu við drungalega og harða hljóminn sem þá réð ríkjum og það fyrsta til þess að koma áhrifum suður-amerískrar tónlistar inn í drum & bass heiminn, eitthvað sem kom aftur fram með upprisu Marky, Patife, XRS og fleiri listamanna frá Brasilíu nokkrum árum seinna.

Árið 1999 stofnaði John sitt eigið útgáfufyrirtæki, Beta Recordings. Næstu ár einbeitti hann sér að koma fyrirtækinu á laggirnar og þar gaf hann nokkrar breiðskífur í viðbót, “Catalyst” árið (1999), remix-breiðskífuna “Catalyst - Reprocessed” (2000), “Future Reference” (2001), og fjöldan allan af smáskífum.

Næstu ár hélt John B áfram að fara ótroðnar slóðir í tónlistarsmíðum. Árið 2001 gaf hann út lagið “Up All Night” sem er dansgólfasmellur með áhrifum frá hardcore-tónlist 10. áratugarins. Lagið kom út á Metalheadz útgáfunni sem er í eigu Goldie og vakti mikla athygli, komst m.a. í fyrsta sæti danstónlistarlista Bretlandseyja.

Árið 2002 sneri John B sér svo að nýjum hlutum og hóf að gefa út drum & bass lög með áhrifum frá hljóðgervlapoppi níunda áratugarins. Lög eins og “Rendez Vous”, “Electronic” og hið ógleymanlega “American Girls” vöktu mikla athygli og fengu blendnar viðtökur en var hvívetna hrósað fyrir frumleika og þor. Einnig stofnaði hann undirútgáfurnar Tangent, Chihuahua og Nu Electro sem hver um sig gefa út drum & bass með ákveðnum og mismunandi áhrifum. Fimmta breiðskífan “In:Transit” leit dagsins ljós árið 2004 og nú fyrir stuttu síðan gaf hann út enn eina breiðskífuna, hina stórskemmtilegu “Electrostep”. Sú plata inniheldur meðal annars rokk/emo/electro/drum & bass smellinn “Stalking You On MySpace” sem hefur komist í útvarpsspilun um heim allan, meðal annars hér á Íslandi.

Hvað framtíðin ber svo í skauti sér er ekki víst, en víst er það þó að það er þess virði að fylgjast vel með sérvitringnum með skrýtna hárið og ekki að láta sig vanta á NASA þann 29. október næstkomandi þar sem John B mun trylla landann eins og honum einum er lagið í þriðja og örugglega ekki síðasta sinn.

>>Heimasíða Beta Recordings
>>John B á MySpace
>>Myndbandið við “American Girls”