Skýjum Ofar 10 ára - 1. júní á Pravda Flestir ef ekki allir sem fylgdust eitthvað með danstónlist á árunum 1996-2000 ættu að muna eftir fyrirbærinu Skýjum Ofar. Frumkvöðlarnir og Kópavogstöffararnir Addi & Eldar (mynd) héldu úti samnefndum vikulegum útvarpsþætti og fjölmörgum klúbbakvöldum á þessum árum og kynntu ótal manns hér á landi fyrir jungle & drum'n'bass tónlistinni.

Heldur hefur farið hljótt um þá kumpána síðustu árin en Breakbeat.is hyggst ráða bót á því. Í júnímánuði eru 10 ár síðan fyrsti Skýjum Ofar þátturinn fór í loftið og því verður haldið upp á afmælið á fastakvöldi júnímánaðar, fimmtudaginn 1. júní næstkomandi, með sérstöku Skýjum Ofar Session á Pravda. Þar standa Addi og Eldar vaktina við spilarana og verður þetta í fyrsta skipti í áraraðir sem þeir spila fyrir almenning. Áherslan verður að sjálfsögðu lögð á tónlist Skýjum Ofar áranna, þannig að þetta verður því eitthvað sem ENGINN má fyrir sitt litla líf missa af.

Einnig verður Breakbeat.is þátturinn á X-inu 97.7 kvöldið áður, miðvikudaginn 31. maí kl. 22.00, tileinkaður Skýjum Ofar. Þá munu þeir Addi og Eldar kíkja í heimsókn og hita upp fyrir fimmtudagskvöldið ásamt Breakbeat.is genginu.

Ekki klikka á 10 ára afmælishátíð Skýjum Ofar í Breakbeat.is þættinum miðvikudaginn 31. maí kl. 22.00 og á Pravda fimmtudaginn 1. júní kl. 21.00!