Sælir, ég skrifaði þessa grein fyrst fyrir http://www.mania.stuff.is

Tvíeykið Röyksopp var stofnað í Bergen í Noregi snemma á tíunda áratuginum, en stofnendur þess og meðlimir eru Torbjørn Brundtland og Svein Berge. Þeir voru einungis virkir í stutta stund og svo tekið sér pásu, en árið 1998 sameinuðu þeir krafta sína aftur með endurkomu Röyksopp. Frá því þá hafa þeir gefið frá sér breiðskífurnar Melody A.M. sem kom út árið 2001 og The Understanding sem kom út í fyrra, eða árið 2005. Svo gáfu þeir frá sér tónleikadisk núna í ár, 2006, sem ber nafnið Röyksopp's Night Out.

Tónlistin sem Röyksopp spilar finnst mér frekar erfitt að lýsa, þeir spila „þunglynda“ raftónlist, allavega á The Understanding. Melody A.M. er mjög góður, enda sést það á sölutölum; hann hefur selst í yfir milljón eintökum, og mjög auðhlustanlegur. Lögin Eple og So Easy kannast allir við, Eple fékk mikla spilun en So Easy eiga bara allir að vita hvaða lag er.
The Understanding er öllu erfiðari í hlustun og þó þeir séu að spila nákvæmlega sömu tónlist og á Melody A.M. er þetta samt einhvern veginn allt öðruvísi finnst mér.
Melody A.M. diskur sem gæti næstum því átt erindi inn á skemmtistaði og býður Eple vissulega uppá það, væri það remixað. Sem það var og gert.
The Understanding diskur sem maður hlustað á heima hjá sér djúpt hugsi, þannig túlka ég allavega þessa diska þeirra. Þeir sögðu í viðtali eftir að diskurinn kom út að sumum fannst hann sem glaðlegur sumardiskur en aðrir grétu yfir honum, því þeim fannst hann svo sorlegur. Hann var einnig gefinn út í takmarkaðri tvöfaldri útgáfu með fimm aukalögum.
Ég á ekki nýjasta diskinn, Röyksopp's Night Out, en ég hef hug á að eignast hann, sér í lagi þar sem þeir tóku Queens Of The Stone Age-lagið Go With The Flow á tónleikunum. Eflaust merkileg útgáfa af því.
Allir diskarnir þeirra skoruðu hátt hjá bæði Pitchfork Media og AMG. Melody A.M. fékk 4.5 og „AMG Pick“ hjá AMG og 7.8 hjá Pitchfork. The Understanding fékk 3 hjá AMG og 8.1 hjá Pitchfork. Röyksopp's Night Out er ekki á skrá hjá AMG en hann fékk 6.2 hjá Pitchfork. Athugið að AMG notar 5 sem hæsta staðal og Pitchfork 10.