Frá og með næstu mánaðarmótum verður afgreiðslutími kráa, skemmtistaða og veitingahúsa í Reykjavík, sem áður höfðu frjálsan opnunartíma, takmarkaður við klukkan 05:30. Verður stöðunum gefinn klukkustundar svigrúm til að rýma staðina. Opnunartíminn verður hins vegar rýmkaður á fimmtudögum og má hafa staðina opna til 02:00, í stað 01:00, aðfaranætur föstudags í allt sumar. Tillaga Verkefnisstjórnar um veitingamál var samþykkt í borgarráði þriðjudaginn 26. júní og gildir hún frá 1. júlí til 1. október, en þá verður ákvörðunin endurskoðuð. Verkefnisstjórnin leggur áherslu á að fram til 1.október vinni borgaryfirvöld í samráði við hagsmunaaðila að frekari stefnumörkun í veitingarmálum í borginni.

Þessar nýju reglur um opnunartíma gilda fyrir rekstur þeirra 33 skemmtistaða, kráa og veitingahúsa sem undanfarið hafa getað haft opið ótakmarkað frá föstudegi til sunnudags. Ekki eru allir á eitt sáttir um reglurnar og virðast bæði vera skiptar skoðanir um þær meðal rekstraraðila staðina og þeirra sem þá sækja. Í óformlegri könnun sem fór fram meðal lesenda reykjavik.com vildu 35,1% óbreyttan opnunartíma, 57,3% einhverjar hömlur á hann og 7,6% einfaldlega loka skemmtistöðum í miðborginni. Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans og Sjálfstæðisflokks samþykktu tillöguna, en þeir síðarnefndu gagnrýndu vinnubrögð í tengslum við breytingarnar og telja að Reykjavíkurlistanum vanti heldarsýn yfir aðgerðir í málefnum miðborgarinnar.


Hvað segið þið um þetta ?
Sátt ?