Laugardaginn 13. ágúst mun tónlistarmaðurinn og plötusnúðurinn Darren White, betur þekktur sem D-Bridge, leika fyrir dansi á Breakbeat.is uppákomu á Gauknum. D-Bridge er eitt stærsta nafnið sem drum & bass heimurinn hefur upp á að bjóða um þessar mundir og er það mikill heiður fyrir Breakbeat.is að fá þennan merka mann í heimsókn á klakann.

D-Bridge er nafn sem flestir ættu að kannast við, undanfarin misseri hefur hann verið að gera það gott á eigin spýtum og með listamönnum á borð við Fierce, Concorde Dawn og Calibre. Þá hefur hann gefið út lög á mörgum af stærri útgáfum senunar má þar nefna Metalheadz, V, Bingo og Soul:R auk þess sem hann hefur unnið hörðum höndum að koma sinni eigin útgáfufyrirtæki, Exit, á laggirnar með góðum árangri.

Þekktastur er hann þó sennilega sem fjórðungur Bad Company gengisins, )EIB( og þar á undan sem helmingur harðhausadúósins Future Forces. Bad Company hafa allt frá upphafi (1999) og til þessa dags verið eitt stærsta og vinsælasta nafn drum & bass menningarinnar, þeir hafa gefið út þrjár breiðskífur og ótal smáskífur sem allar seldust eins og heitar lummur og gengu vel í dansgólf um víða veröld. Þótt Bad Company hafi sem hópverkefni verið sett í pásu um ótilgreindan tíma er arfleið þeirra langt frá því að vera gleymd og grafin. Future Forces áttu svo þátt í að skapa Renegade Hardware útgáfunni þann sess sem hún hefur í dag og voru eitt af stærstu nöfnunum í lok hins goðsagnakennda techstep tímabils.

Takið því laugardaginn 13. ágúst frá fyrir D-Bridge og Breakbeat.is á Gauknum.

www.breakbeat.is