Goldie á 5 ára afmælishátíð Breakbeat.is Um þessar mundir fagnar Breakbeat.is 5 ára afmæli sínu og verður haldið allrækilega upp á áfangann í byrjun næsta mánaðar. Forsmekkurinn verður á fastakvöldi Breakbeat.is á Pravda fimmtudaginn 7. apríl næstkomandi þar sem fastasnúðar Breakbeat.is spila fyrir dansi, ef til vill ásamt óvæntum gestum.

Daginn eftir, föstudaginn 8. apríl brestur síðan á með látum. Þá mun enginn annar en Clifford Price, betur þekktur sem Goldie, og eigandi Metalheadz-plötuútgáfunnar goðsagnakenndu spila á skemmtistaðnum Nasa.

Goldie þarf vart að kynna fyrir íslenskum áhugamönnum um jungle & drum'n'bass, því hann er án nokkurs vafa stærsta og þekktasta nafn senunnar frá upphafi. Þetta verður ekki fyrsta Íslandsheimsókn Goldie, því hann kom fyrst til hingað til lands árið 1992. Þá gerði hann fyrsta lagið sitt ásamt Ajax (Þórhalli Skúlasyni og Biogen) og gerði auk þess graffitilistaverk víða á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Í kjölfarið fylgdi síðan stormasamt ástarsamband hans við Björk og eftirminnilegir tónleikar í Laugardalshöll í júní árið 1996.

Goldie var fyrstur manna í jungle & drum'n'bass til að gefa út sólóbreiðskífu, hina goðsagnakenndu “Timeless” árið 1995. Hann gaf út sína aðra breiðskífu, “Saturnz Return”, árið 1998 og er um þessar mundir að leggja lokahönd á sína þriðju. Hún ber vinnutitilinn “Sonik Terrorism” en hana hefur hann að mestu leyti unnið með harðhausnum Technical Itch og kemur hún út undir nafninu Rufige Kru.

Goldie hefur auk þess unnið með heimsþekktum tónlistarmönnum á borð við David Bowie, Noel Gallacher úr Oasis og bandaríska rapparanum KRS-One. Hann hefur auk þess komið fram á hvíta tjaldinu í myndum eins og Snatch og Bond-myndinni The World Is Not Enough.

Það er því óhætt að segja að það sé von á góðu þegar Breakbeat.is fagnar 5 ára afmæli sínu í apríl!

www.breakbeat.is
www.metalheadz.co.uk