Sasha til Íslands *Tekið af Reykjavik.com*

Einn stærsti plötusnúðar heims, Sasha, spilar hér á landi í sumar. Það er skemmtistaðurinn Thomsen sem stendur fyrir komu kappans og mun hann spila þar föstudagskvöldið 8. júní. Það má passlega búast við að einhver fjöldi dansþyrstra Breta fljúgi hingað til lands með Go fyrir tíu þúsund kall og til að sjá og heyra í kappanum. Við Íslendingar verðum því að hafa augun opin fyrir forsölunni ef við ætlum ekki að missa af stjörnunni.

Sasha er fæddur í Norður Wales og hóf feril sinn sem plötusnúður á níunda áratugnum. Eftir að hafa spilað á nokkrum litlum klúbbum tók ferill hans stórt stökk þegar hann hóf að snúa skífum á Renaissance klúbbnum við upphaf tíunda áratugarins. Sasha varð á skömmum tíma landsþekktur í Bretlandi og á næstu árum fór frægð hans að berast víðar. Nú er svo komið að Sasha er flokkaður með stærstu plötusnúðum heims.

En Sasha er meira en plötusnúður. Hann hefur gert nokkur lög undir eigin nafni, sem meðal annars hafa komist á breska vinsældarlistann, og á sína eigin plötuútgáfu Excession Recordings. Hann hefur einnig verið liðtækur í remix bransanum og endurhljóðblandað listamenn á borð við Madonnu, Pet Shop Boys, Simply Red, Chemical Brothers og Gus Gus.

Fyrir þá sem vilja hita upp fyrir komu Sasha bendum við á safnplöturnar Global Underground: San Fransisco, Global Underground: Real Ibiza, Communicate og hinar frábæru Northen Exposure 1 og 2 sem hann setti saman með John Digweed. Kíkið á www.Sasha.co.uk fyrir frekari upplýsingar um Sasha, tónlist hans, hvar hann er að spila, nýjar fréttir og svo framvegis.

DJ Paul Kane spilar með Sasha á Thomsen!