Í morgunblaðinu í dag (27. júlí 2004, bls 36) er grein eftir Arnar Eggert Thoroddsen sem ber heitið “Plötubúðamenning”. Tilefni hennar er ný verslun sem er á Laugarvegi 21 (sama húsi og Hljómalind var í) sem kallast Músík og Meira, ég sjálfur hef ekkert nema gott af þeirri verslun að segja og gaman að því að bætist í plötuverslunarflóru Íslendinga. Arnar virðist sammála mér í þeim málum en fer svo út í að ræða þessa flóru. Það sem vakti athygli mína er að plötubúðin Þruman gleymist í upptalningu kauða sem annars nær yfir nánast alla staði þar sem hægt er að nálgast tónlist á einu eða öðru formi á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

“Skífan sér um markaðstónlistina og er það góðra gjalda vert. En fyrir grúskarana, þ.e. þá sem hafa meiri áhuga á tónlist en almennt getur talist, er í fá hús að vernda. 12 tónar á Skólavörðustígnum er nærfellt eina plötubúðin í borginni sem sinnir þessum þætti.”

Arnar telur svo upp fleiri verslanir: Safnarabúðina, Vídeósafnaran, Geisladiskabúð Valda, Kolaportið og “Pínkuponsulitlu plöutbúðina sem er að finna á höfuðstað Norðurlands Akureyri”. Arnar ræðir svo um ástandið eins og það var á árum áður og veltir fyrir sér hvort niðurhal og brennanlegir diskar hafi haft mikil áhrif. Hann rómantíserar plötubúðamenninguna og þá einlægni sem getur ríkt í minni sérverslunum.

Ég man eftir grein hér á öðru áhugamáli þar sem braust út mikið rifrildi yfir ummælum Arnars um Nirvana og Kurt Cobain. Það er nú ekki ætlun mín að reyna að koma neinu slíku af stað, hef ekkert út á Arnar Eggert að setja en þykir áhugavert/skrýtið að Þruman gleymist í grein eftir einn af tónlistarspekúlöntum Moggans. Þruman hefur séð mér fyrir meirihluta af þeirri tónlist sem ég hef keypt á undanförnum árum og held ég að það eigi við um flesta aðdáendur raftónlistar á Íslandi hvort sem þeir versla vínyl eða geisladiska. Auk þess hefur Grétar staðið að baki fjölda viðburða og klúbbakvölda og þykir mér skrýtið að Þruman sé útundan í pistli Arnars.

Er danstónlist svona sér á parti og ekki í hugum neinna nema sérvitringa? Það má vel vera að Þruman hafi bara gleymst og kannski væl í mér að skrifa þessa grein og kannski hefði hún átt betur heima í velvakanda, en þessu áhugamáli veitir ekki af smá umræðu