Dómur um 4ra ára afmæli Breakbeat.is Þar sem mér finnst yfirleitt vanta umræður um hvernig áhugaverðu klúbbakvöldin gengu ætla ég að pósta hér dóm sem ég skrifaði fyrir breakbeat.is um afmæliskvöldið sem þeir héldu síðastliðið föstudagskvöld á Kapital.

Í fjarveru magnara míns hef ég auðvitað ekkert betra að gera en að skrifa hér dóm um fjögurra ára afmæli breakbeat.is sem fram fór á Kapital þann 23. apríl. Þar komu við sögu fastasnúðar breakbeat.is, þeir Gunni Ewok, Kalli og Lelli ásamt DJ Bailey sem kom frá Bretlandi sérstaklega til þess að leika fyrir dansi á afmælinu.

Kvöldið fór rólega af stað, DJ Gunni Ewok hóf kvöldið og lék meðal annars hina frábæru endurgerð 4 Hero manna af lagi Nuyorican Soul, “I Am The Black Gold Of The Sun” þegar ég var að ganga inn. Þá voru um það bil 15 manns í húsinu og maður vissi ekki alveg við hverju var hægt að búast af kvöldinu. Staðurinn var þó fljótur að fyllast og þegar DJ Gunni Ewok var að klára sitt sett með alveg hreint rosalega teff lagi, “Drum Sessions” remixinu eftir Seba, var klúbburinn orðinn þétt setinn þó fólk væri ekki komið í dans gírinn alveg strax. Gunni lét þó ekki staðar numið þar heldur skundaði hann rakleitt á dansgólfið, enda greinilegt að hann var að spila eitt af sínum uppáhalds lögum. Einnig fylgdi banani nokkur í náttfötum í kjölfar Gunnars og steig nokkur dansspor til að sýna að bananar geta einnig dansað.

Eftir DJ Gunna tók við DJ Lelli. Hann ásamt Kalla komu mér alveg stórskemmtilega á óvart og ég held að það sé óhætt að segja að þeir séu orðnir “TEFF”! Lella tókst að koma fólkinu útá gólfið með fullt af skemmtilegum lögum, hann byrjaði settið sitt á lagi eftir Ray Keith sem heitir “Changes”. Einnig fór hann útí “edits” pælingarnar í laginu “So Vain” sem Breakage gerði og varð að sjálfsögðu allt vitlaust. Settið endaði hann svo á “Another Planet” sem er þessi hefðbundni gólf slagari og margumbeðið óskalag í útvarpsþætti breakbeat.is.

Kalli tók við spilastokknum um klukkan hálf tvö og gaf út að þessu sinni úr öllum spilastokknum, það er að segja að hann spilaði lög úr öllum áttum drum'n'bass sjóndeildarhringsins. Þegar þá var komið við sögu var svitinn farinn að renna af mörgum, stappfullt og mikið stuð á staðnum. DJ Kalli setti fyrst á fóninn “Sights Beyond - 2004 remixið” eftir góðkunningja Íslands, John B. Stemmningin hélt svo áfram að magnast eftir því sem leið á kvöldið enda var Kalli að spila hreint út sagt frábæra músík, lék fyrir dansgesti hálf liquid lagið “Little Green Man” eftir Cyantific og Squarepusher remix af “Scratch Yer Head” sem kom mér stórlega á óvart! Kalli lauk svo þessu setti sínu á hinu vægast sagt brjálaða “Acid Rain remixi” eftir Breakage, en það heyrðust einmitt ófá lögin eftir hann þetta kvöldið.

Eftir að DJ Kalli hafði spilað í rúman klukkutíma tók við enginn annar en DJ Bailey. Hann stóð sig vel í því að fylgja eftir þeirri stemmningu sem Kalli hafði skapað. Þeir sem þekkja til hans vita að hann á það til að vera mjög fjölbreyttur í lagavali og þetta kvöld var engin undantekning. Hann spilaði lög eftir frekar ólíka listamenn á borð við Calibre & High Contrast, sem eru í liquid kanntinum og áttu lög á borð við “Mr. Maverick” og “Lovesick”, “Tombrider” og “Blazin' remix” harðkanntmennina Fresh & Dillinja og drumfunkarana Breakage & 0=0 (borið fram Zero Equal Zero) og spilaði hann t.d. bæði “So Mars” sem og “Prophecy remix” eftir Breakage og “In Your Eyes” með 0=0, sem var að margra mati besta lag kvöldsins. Einnig ber að nefna “Solar Jive” eftir marsbúann Danny Breaks og “Odissey” eftir þá félaga Simon Bassline Smith og Drumsound.

Að lokum tók DJ Gunni aftur við stjórn spilaranna og lék þar til staðnum var lokað eða í tæpan klukkutíma. Það hafði þá aðeins dregið úr fólki enda getur verið erfitt að dansa við drum'n'bass tónlist alla nóttina. Þó voru nokkur lögin sem hann spilaði sem drógu mann útá gólfið einsog hið margspilaða “No Trust” eftir þá Klute & John Tejada og “Coded Language” sem DJ Krust gerði ásamt rapparanum Saul Williams. Fyrsta lagið sem hann spilaði var gamalt og gott með Queen Mecca sem eru í raun Dego og K-Hand og heitir “Steppin Stone” en Gunni var kannski full bráður að koma því af stað því fólki gafst ekki mikill tími til að klappa fyrir DJ Bailey.

En nóg af þessari lagaupptalningu. Allir sem komu fram þetta kvöldið spiluðu líklega ein af þeirra bestu settum sem gerði það að verkum að stemmningin var alveg frábær frá því að hún myndaðist og þangað til músíkin var stöðvuð. Það sést kannski best á því að í lokin voru eftir á gólfinu strákar í Metallica bolum og sást til þeirra vera að gefa merki með þumalfingurinn uppí loft sem flestir skilja þannig að þeir hafi verið ánægðir með kvöldið. Ég skemmti mér allavega mjög vel og þetta var eitt af bestu drum'n'bass djömmum sem ég hef farið á og ætla ég að gefa þessu 10 í einkunn af 10 mögulegum!!

Takk enn og aftur fyrir frábært kvöld og teff tónlist!

MC Nonni / Jón Berg